145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir það með hv. þingmanni að ráðast þurfi í að athuga hvort Álftafjarðargöng séu raunverulega möguleiki. Það væri betra ef tillaga minni hlutans hefði að fullu farið inn í tillögu meiri hlutans en það er þó eitthvað sem hefur komist inn, t.d. viðhald á vegum og endurbætur á veginum að Látrabjargi. Það er gleðiefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hve mikið fjármagn hún heldur í reynd að þurfi til að koma Vestfjörðum í skikkanlegt horf. Til þess að vera með endurbætur af og til og til þess að viðhalda vegum telur Vegagerðin sig þurfa allt að 11 milljarða kr. á ári. Mig langar tað spyrja hv. þingmann, þar sem hún er mjög kunnug þarna, hve mikið fjármagn hún heldur að þurfi til að koma Vestfjarðarkjálkanum, og þar á meðal sunnanverðum Vestfjörðum, í þannig horf að vegir verði öruggir, að ekki verði lengur malarvegir þarna heldur alla vega bundið slitlag og þar fram eftir götunum.