145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:32]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stórt er spurt og ég er ekki verkfræðingur í fjármálareikningum hvað varðar vegagerð. Mín þumalputtaregla er sú að segja 50 milljarðar og það væri svolítið gaman að fá að vita hvort ég er langt frá réttri tölu eða ekki, en ég hugsa að það sé ekki endilega fjarri lagi. Við erum að tala um að ljúka vegaframkvæmdum á Vestfjarðarvegi 60 og nokkrum héraðs- og tengivegum, Dýrafjarðargöngum, uppbyggingu á Dynjandisheiði og að ljúka við veginn um Strandir í Árneshreppi og við veginn út á Látrabjarg. Ég hugsa að það sé ekki fjarri lagi að segja 50 milljarðar plús. En ég ætla ekki að ábyrgjast þá tölu og vel má vera að einhver hjá Vegagerðinni — starfsmenn hennar eru ábyggilega að fylgjast með þessari umræðu — hrökkvi upp af standinum út af svo óábyrgu tali þingmanns kjördæmisins.

Við verðum líka að hafa einhverja tilfinningu fyrir þessum málum og ég legg mikla áherslu á Álftafjarðargöngin, en eins og ég skil það er búið að rannsaka ákveðnar leiðir þar. Kannski eru þau göng ekki inni í þessum 50 milljörðum. Ég held að það þurfi að taka þau út fyrir sviga, það gætu orðið 60 milljarðar ef við tökum þau göng líka. En þau eru mjög brýn vegna þess að leiðin milli Súðavíkur og Skutulsfjarðar er oft og tíðum stórhættuleg. Maður þakkar fyrir að ekki verði alvarleg slys þar.