145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:39]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er komin í mína aðra eða þriðju ræðu um samgönguáætlun sem nú liggur fyrir Alþingi. Það er nú gaman að sjá þegar maður lítur yfir þennan fámenna sal að það eru bara konur í salnum að ræða samgöngumál og kveður þar við nýjan tón. En kannski eru strákarnir bara í einhverju baktjaldamakki í reykfylltum bakherbergjum um það hvernig hægt sé að lenda þessari ágætu samgönguáætlun því að við heyrum á göngunum að það séu að koma inn ýmsar nýjar hugmyndir. En gott og vel.

Fyrst vil ég segja að ég fagna auðvitað breytingartillögunni sem kemur frá allri nefndinni og ríkir orðið full samstaða um, um viðbótarframlög til rannsókna. Sérstaklega gleðst ég yfir liðnum, sem samstaða ríkir um, að bæta við 2 milljörðum í viðhald og endurbætur, enda er löngu tímabært að fara að uppfæra stofnvegakerfi okkar. Ég ætla að nota síðustu mínútur mínar í ræðustól, því að þetta er síðasta ræðan sem ég held á Alþingi, til að fjalla um sérstaklega um samgönguáætlun, nánar tiltekið um vegabætur til Vestfjarða og sóknaráætlun. Í fyrsta lagi segir í tillögu til þingsályktunar að samgönguáætlun hafi skírskotun og sé í samhengi við sóknaráætlun landshluta. Ég skoðaði sérstaklega sóknaráætlun Vestfjarða fyrir tímabilið 2015–2019 og ég verð að segja það að þessi sóknaráætlun er auðvitað góðra gjalda verð, hún er skref í rétta átt og hún hefur sannarlega skírskotun til samgönguáætlunar, en að öðru leyti verð ég að lýsa því yfir að mér hafa orðið það ákveðin vonbrigði hversu mikið sóknaráætlanir landshluta hafa þynnst út frá því að sú hugmynd fyrst kom fram. Það var á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og við hófum að tileinka okkur vinnubrögð sem tíðkast þar í áætlanagerð og þá sérstaklega í byggðamálum. Þar sóttum við okkur fyrirmyndir til annarra Evrópuríkja þar sem menn gera alvörusóknaráætlanir til sjö ára í senn sem eru þannig í skjóli fyrir hugsanlegum breytingum á meiri hluta á þingum.

Sú sóknaráætlun Vestfjarða sem hér liggur fyrir, 2015–2019, er til að mynda því marki brennd að mjög fáir koma að því að leggja grunn að henni. Fjórðungssamband Vestfirðinga kallaði ítrekað eftir samráði, eftir því sem fram kemur í þessu plaggi, um það hvernig sóknaráætlunin ætti að líta út. En eftir því sem fram kemur í skjalinu var niðurstaðan sú að mjög fáir af þeim sem kallaðir voru til til að taka þátt í stefnumörkuninni lögðu hönd á plóg. Ég ætla ekkert að gefa mér hvers vegna raunin er sú, en ég hef heyrt að fólki þyki sem þetta sé orðið sýndarsamráð og því hafi þátttakan í þessu tilviki verið eins dræm og raun ber vitni. Það kemur fram á bls. 13 í sóknaráætlun fyrir Vestfirði að ítrekað var reynt að fá fólk að borðinu en aðeins fjögur sveitarfélög af níu skiluðu inn tilnefningum um samráðsvettvang.

Engu að síður er þetta áhugavert plagg og ég verð að segja það, virðulegur forseti, að sá landsfjórðungur sem stendur hjarta mínu næst er einmitt Vestfirðir því að ég bjó þar og starfaði í nokkur ár og þekki þar af leiðandi ágætlega innviðina og samfélagið þar. Því miður er það svo að kannski er stærsta vandamálið ekki endilega samgöngur vegna þess að hvað sem líður umræðunni um vonda vegi á Vestfjörðum þá hafa þeir batnað mjög mikið, þökk sé þingmönnum Norðvesturkjördæmis sem barist hafa ötullega fyrir vegabótum vestur á fjörðum. Það eru höf og lönd milli þess að keyra Vestfirði núna eða fyrir örfáum árum, hvort sem það eru sunnanverðir eða norðanverðir Vestfirðir. Nú blasir við allt annar veruleiki en bara fyrir örfáum árum síðan. Vandræðin í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum eru ekki endilega skortur á fjárveitingum eða vilja, vandræðin snúast fyrst og fremst um deilur um vegstæðið í gegnum Teigsskóg.

Ég vil aðeins koma aftur að því sem fram kemur í sóknaráætlun Vestfjarða. Þar segir m.a. að stór hluti af vandamálum Vestfjarða í dag sé einhæft atvinnulíf. Þetta einhæfa atvinnulíf hefur ekki þróast með þessum hætti vegna þess að samgöngur séu svo vondar. Það hefur þróast þannig vegna þess að ekki hefur endilega verið vilji til þess að leggja áherslu á að byggja upp samfélag — jú, kannski hefur verið vilji en hann hefur ekki náð alla leið — sem hentar jafn vel fyrir konur og karla til að setjast að vestur á fjörðum. Það er staðfest í þessari skýrslu að atvinnulíf á Vestfjörðum er mjög einhæft og það er karllægt. Það er rót vandans, að ég held, að miklu leyti. Það er atvinnulífið en ekki vegakerfið, þó að auðvitað hangi þetta mjög mikið saman, að sjálfsögðu.

Ástæða þess að ég fór í pólitík á sínum tíma árið 2009 var einlæg trú mín á því að Ísland væri betur komið innan Evrópusambandsins og hef ég ekki vikið frá þeirri trú minni síðan jafnvel þótt ýmislegt hafi gengið á í álfunni. Oft verður mér hugsað til Vestfjarða í þeim efnum. Ef við viljum tala um kjördæmapot eða kjördæmaskipan í þessu landi þá hugsa ég að landsbyggðin á Íslandi, og sérstaklega landsbyggðarkjördæmin Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, og Suðurkjördæmi eftir atvikum líka, hefðu sennilega hagnast mest á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Því held ég að tap þessara landsvæða sé gríðarlegt. Þá er ég ekki bara tala um fjármuni sem hefðu runnið þangað úr sjóðum Evrópusambandsins, ég er líka að tala um aðhald og skipulag í vinnubrögðum hér á Alþingi Íslendinga. Þess vegna er það enn þá trú mín, eins og áður er sagt, virðulegur forseti, að við eigum að halda áfram, við eigum að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi samningaviðræður við Evrópusambandið.

Virðulegi forseti. Að þessum orðum sögðum langar mig að þakka þinginu og þingmönnum síðustu tveggja kjörtímabila fyrir ánægjulegt samstarf. Eins og ég sagði áðan kom ég fyrst inn á þing árið 2009. Það er margt minnisstætt í þingstörfunum. Þó að ég hafi dvalið hér mislengi, eða misstutt, hef ég nokkrum sinnum tekið sæti. Minnisstæðast og erfiðast er auðvitað landsdómsmálið sem var okkur öllum mjög þungt í skauti og reyndi mjög á hvert og eitt okkar og auðvitað samheldni og samstarf þingmanna á þeim tíma. Það var erfitt og ég ætla að vona að við þurfum aldrei aftur að lenda í slíku máli sem það var og að við lærum að sjálfsögðu af því líka.

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir mig.