145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:48]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu þingmannsins, enda kom hún inn á þau málefni sem samgöngumálefni þurfa líka að taka tillit til og það eru konur og réttindi kvenna í heiminum. Mig minnir að þegar verið var að fjalla um þessa samgönguáætlun hafi einhver úr Fjórðungssambandi Vestfjarða, gott ef ekki, einfaldlega sagt að fjölskyldufólk og konur væru m.a. að flytjast úr þessari byggð, úr þeirri brothættu byggð sem Vestfjarðarkjálkinn er í heild sinni, út af vegum, af því að vegakerfið er svo slæmt og óöruggt. Það er mikið sjálfsákvörðunarmál að geta búið þar sem maður upplifir sig öruggan, þar sem konur upplifa sig öruggar, ef maður á að nota það til samanburðar.

Það er mjög mikilvægt, held ég, að líta á samgönguáætlun í miklu heildstæðara ljósi og jafnvel út frá kynjafræðilegum sjónarmiðum. Mér þótti þetta því mjög áhugavert. Að sama skapi er þessi afstaða þegar kemur að Vestfjörðum og ég deili því með hv. þingmanni þó að ég eigi hvorki ættir að rekja til Vestfjarða né hafi búið þar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, þar sem hún hefur sjálf búið á Vestfjörðum og þar sem hún er kona, hvort hún hafi einhvern tímann upplifað það að vera óörugg á vegum sem þar eru, hvort þessi tilfinning sem margir hafa gagnvart vegamálum og sér í lagi slæmum vegum sé sönn eða hvort þetta sé aðeins tilfinning sem maður hefur heyrt af en er kannski ekki mikið til í.