145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:50]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir andsvar hennar. Ég bjó og starfaði vestur á fjörðum á árunum 1992–1995 og þá sem ferðamálafulltrúi Vestfjarða. Eðli málsins samkvæmt var ég mikið á ferðinni og oftast ein og allan ársins hring. Ég bjó á Vestfjörðum og með Vestfirðingum þegar mestu náttúruhamfarir fjórðungsins gengu yfir og auðvitað leið mér ekkert alltaf vel, nema síður sé. En mér leið samt oftast vel vegna þess að þetta er dásamlegt svæði að búa á og þarna býr gott fólk, raungott fólk. Eins og ég sagði áðan þá fer ég mjög oft vestur og vegirnir hafa breyst svo svakalega mikið að það er algjörlega ólíku saman að jafna.

Virðulegur forseti. Ég vil líka bæta því við að þegar Íslendingar voru í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og ég fór mjög mikið um landið og var að undirbúa svonefnd IPA-verkefni að það var mjög ánægjulegt að fara og eiga samtal við fólk, stofnanir, fyrirtæki og einstaklinga, sem gat allt í einu hugsað sig inn í sjö ára byggðaáætlun, þar sem mátti taka kynjavinkil. Lögð var áhersla á að taka kynjavinkilinn í byggðamálunum. Það voru beinlínis þau skilaboð sem við fengum að það væri viðhaft í byggðamálum Evrópusambandsins að gæta jafnræðis og þar sem hallaði á atvinnumál annars kynsins, og það er jú oftast kvenna, þá skyldum við sérstaklega skoða þann möguleika.

Þegar við fórum um landið með þau skilaboð að undirbúa stór og metnaðarfull verkefni — það voru vitaskuld miklir peningar í boði, virðulegur forseti, það er nú bara þannig í byggðamálum Evrópusambandsins — þá var eins og opnaðist ný gátt og miklu frjórri hugmyndir um það hvernig hægt er að byggja upp atvinnulíf, m.a. á Vestfjörðum.