145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:55]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur andsvarið öðru sinni. Ég get ekki sagt að ef við gengjum í Evrópusambandið í dag mundi það láta mikla fjármuni í vegagerð á Íslandi, ég dreg það í efa. Það var hins vegar ákvörðun að byggja samgöngukerfið í Austur-Evrópu upp vegna þess að það var í mjög bágu ástandi þegar Austur-Evrópuþjóðir gengu í sambandið, þetta var sérstakt átak. Hins vegar, af því að við erum svo heppin að vera á þeim hluta hnattarins, í Evrópu ef við förum niður á minni skala, búum við mikla velsæld. Það er bara forgangsmál að ákveða að byggja upp samgöngur umfram annað. Það sem mér fannst mjög lærdómsríkt í þessu ferli var m.a. þessi nálgun hvað varðar byggðasjónarmið, byggðauppbyggingu, og þar er útgangspunkturinn ekki samgöngumál út af fyrir sig heldur að byggja upp innviði fyrir menntun, atvinnuþróun, nýsköpun og annað því um líkt. Þar er, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, lögð sérstök áhersla á að styrkja konur sem búa í brothættum byggðum til að mennta sig og til að skapa sér tilveru og tilvist í dreifðum byggðum á eigin forsendum.

Eins og ég kom inn á í ræðu minni áðan þá segir beinlínis í sóknaráætlun Vestfjarða að kannski sé helsti vandi Vestfjarða núna, og ástæða fólksfækkunar þar, ekki endilega vegakerfið eitt og sér, þótt það skipti auðvitað máli, heldur líka einhæft atvinnulíf og mjög karllægt, árstíðabundin sveifla í ferðaþjónustu og annað slíkt. Það er ánægjulegt að fá aukafjárveitingu í veginn út á Látrabjarg og allar þær vegabætur sem lagðar eru til í samgönguáætlun sem liggur fyrir þinginu, en það er annað og meira sem er hugsanlega vandi Vestfjarða og tengist ekki samgönguáætlun sem slíkri.