145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:59]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir andsvar hans. Nú verð ég að viðurkenna að ég þekki ekki nýjustu stöðuna hvað varðar Teigsskóg á sunnanverðum Vestfjörðum, þannig að ég get ekki svarað þessari spurningu. Það er hins vegar þannig, og ég kom aðeins inn á það í ræðu minni í gær, að vegagerð í botni Berufjarðar hefur meðal annars strandað á ósamkomulagi eða þvergirðingshætti milli landeigenda og Vegagerðarinnar um vegstæðið. Þannig er háttað víða um land að við lendum í vandræðum með að leggja þá vegi sem kallað er eftir og við viljum sjálf að séu hluti af góðu vegakerfi landsins.

Ég vona, fyrir hönd Vestfirðinga og allra þeirra sem vilja leggja leið sína vestur á firði, sem er jú sístækkandi hópur, hvort sem það eru ferðamenn eða þeir sem huga á búsetu eða vilja byggja upp atvinnu í þessum fjórðungi, að þessum deilum um Teigsskóg linni. Tveir þingmenn af Vestfjörðum eru hér í salnum og þær geta kannski upplýst okkur um stöðu mála hvað varðar vegalagningu um Þorskafjörð og Teigsskóg.