145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:12]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þar sem við erum í jarðgangaþema, í ræðum um samgönguáætlun, langar mig að heyra skoðanir hv. þingmanns á áhrifum Álftafjarðarganga, ef þau verða að veruleika, á samfélagið fyrir vestan og á norðanverða Vestfirði. Við héldum upp á 20 ára afmæli Vestfjarðaganga nýlega, 14. september voru 20 ár frá því að þau voru vígð. Fyrrverandi samgönguráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, átti stærstan þátt í því að þau yrðu að veruleika á sínum tíma og sýnir það að menn geta unnið út fyrir sitt kjördæmi og þannig á það að vera.

Í kjölfarið á þeirri framkvæmd voru sveitarfélög sameinuð á Vestfjörðum. Ísafjarðarbær átti 20 ára afmæli í ár, ástæða þess að hægt var að sameina þær byggðir sem runnu inn í Ísafjarðarbæ var að samgöngur voru orðnar greiðar þar á milli og varð gjörbylting fyrir allt mannlíf og atvinnulíf á því svæði. Það er kannski ekki alltaf skilningur á því hvað jarðgöng gera. Sumir halda að það sé bara spurning um styttingu á leið en hugsa ekki út í öryggisþáttinn og allt það sem gjörbreytist í framhaldinu, að samfélögin verði sterkari, eflist, geti nýtt betur menntun og menningu, heilbrigðisþjónustu og svo mætti áfram telja.

Mig langar að fá aðeins framtíðarsýn hv. þingmanns þar sem hún flutti ásamt fleirum tillögu um Álftafjarðargöng, að koma þeim á vegáætlun, en sú tillaga liggur fyrir þinginu.