145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ákvað nú að blanda mér enn í þessa umræðu sérstaklega til að fagna breytingartillögu sem nú er flutt af sameinaðri umhverfis- og samgöngunefnd undir forustu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur þar sem í aðalatriðum verða teknar inn í samgönguáætlunina breytingartillögur minni hlutans sem hér voru lagðar fram með nefndaráliti fyrr í umræðunni. Það bendir kannski til þess að við ættum jafnvel að halda samgönguáætlun enn þá lengur opinni ef hún heldur áfram að batna svona, eða samstaðan í kringum hana. Það er að sjálfsögðu fagnaðarefni þegar stórt mál af þessu tagi fær farsæla afgreiðslu og meiri sátt verður um það á lokametrunum.

Ég held það sé óumdeilt að þörfin er til staðar og jafnvel þótt meira væri, en hér er sem sagt að takast samkomulag um að setja á annan milljarð kr. sérstaklega inn í viðhaldsþáttinn og síðan til undirbúning eða upphafs nokkurra brýnna framkvæmda sem mjög var búið að ræða í umræðunni að hefðu orðið út undan, eins og vegur á Skógarströnd og Örlygshafnarvegur.

Svo er þarna tekið af skarið með að hefja skuli undirbúning að gerð vegar yfir Öxi í beinu framhaldi af því að framkvæmdum lýkur í Berufjarðarbotni, sem vel að merkja ættu löngu að vera búnar ef ekki hefðu orðið miklar tafir á því verki af ýmsum ástæðum aðallega vegna ágreining um vegarstæði og deilna við eða milli landeigenda. Að lokum sér nú fyrir endann á því og nú er allt til staðar, held ég, sem þarf til að fara í þá framkvæmd. Þá blasir við að uppbyggður vegur yfir Öxi er gríðarlega góð framkvæmd, mikil stytting á öllum flutningum og samgöngum af sunnanverðum Austfjörðum og upp á Hérað og reyndar í sjálfu sér fyrir alla þá umferð sem kemur austur með ströndinni og endar uppi á Héraði eða Norðausturlandinu. Vegurinn er mjög mikið ekinn. Umferðin er hundruð bíla á sólarhring á meðan vegurinn er opinn og á einstaka snjóléttum vetrum að undanförnu hefur hann verið opinn stærstan hluta ársins. Það hafa komið það mildir vetur þarna á þessu svæði, en að sjálfsögðu háir það því mjög að vegurinn nýtist að hann er ekki uppbyggður, þannig að ég fagna þessari framkvæmd alveg sérstaklega.

Varðandi þær umræður sem hér hafa orðið um jarðgöng, sem ég hef fylgst með og áhugamaður um það eins og fleiri sem hér hafa talað, verð ég að segja að það er eiginlega mitt mat að Íslendingar hafi gert ein af sínum stærri mistökum í samgöngumálum að fara ekki miklu fyrr af stað með jarðgangaáætlun og af umtalsverðum krafti. Það kom langt og sorglegt hlé eftir að hin óburðugu göng í Oddsskarði og Strákagöng voru gerð og vældu menn þá undan því að reynslan af gerð þeirra ganga væri nú ekki góð og þetta væri sennilega erfitt á Íslandi o.s.frv. Ég man ekki hvað hléið var svo langt, um 15, 20 ár, en á sama tíma hófu Færeyingar sín metnaðarfullu plön um að tengja flestallar eyjarnar saman með jarðgöngum og eru langt komnir með það. Nú stefnir í göng til Sandeyjar og göng undir Kollafjörð. Þá er ekkert eftir nema Suðurey, sem ekki er ein af stóru byggðu eyjunum, sem ekki er komin í eitt samtengt net. Þetta hafa Færeyingar gert af mikilli þrautseigju. Þeir taka gjöld í tilteknum göngum og með tugum jarðganga eru þeir búnir að búa til eitt atvinnu-, þjónustu- og samskiptasvæði á öllum norðurhluta eyjanna, sem auðvitað gjörbreytir aðstæðum fyrir nútímasamfélag þar.

En við erum auðvitað svo langt á eftir sem raun ber vitni vegna þess að það liðu ár og áratugir án þess að nokkuð væri aðhafst hér. En betra er seint en aldrei og má heita að núna síðustu 20 eða 25 árin hafi nokkurn veginn verið samfelldar jarðgangaframkvæmdir. Því miður er yfirleitt ekki nema ein framkvæmd í gangi í einu, sem þyrfti að vera tvær eða a.m.k. þannig að göng sköruðust það myndarlega að menn væru byrjaðir á nýjum stað á meðan verið væri að ganga frá og gera klárt fyrir umferð næstu göng þar á undan. Þá halda áfram að gerast góðir hlutir í þessum efnum.

Ég tek að sjálfsögðu undir það að göng til að leysa af hólmi þennan hættulega vegarkafla milli Ísafjarðar og Súðavíkur eru mjög nauðsynleg og eðlilegt að fara að huga að undirbúningi þeirra, en það á líka við um göng sem leysa af hólmi hinn stórhættulega veg í skriðunum norðan við Siglufjörð, sem gæti þess vegna (Forseti hringir.) farið allur saman á haf út í flóði hvenær sem er, því að þar er allt landið að síga og stórir stallar (Forseti hringir.) á veginum. Það er því líka eðlilegt að horft sé til undirbúnings þeirrar framkvæmdar.