145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að í næstu langtímaáætlun eigi að stilla upp áætlunum um leiðirnar út frá höfuðborginni, a.m.k. austur að Þjórsá í suður og að sjálfsögðu til Suðurnesja og síðan upp á Vesturlandið og í fyllingu tímans til Akureyrar, það verður undirbúið að fara þar í aðskildar akstursstefnur. Það er ekkert annað sem framtíðin ber í skauti sér en það, en það er auðvitað stórt og mikið verkefni. Að því þarf að hyggja vegna þess að í vissum tilvikum koma til endurbyggingar á næstu árum elstu kaflarnir á þeim leiðum. Það eru enn býsna gamlir kaflar, mjóir vegir með lélegu slitlagi sem tilheyra þjóðvegi 1 og Vegagerðin er að huga að því að taka suma þeirra til endurbyggingar. Að sjálfsögðu á þá að endurbyggja þá sem 2+1 veg a.m.k.

Varðandi jarðgöngin er alveg ljóst að við eigum þar óunnin brýn verkefni. Við erum náttúrlega að fara af stað með Dýrafjarðargöng og hér hafa verið nefnd Súðavíkurgöng. Seyðisfjörður, tenging Seyðisfjarðar er algert forgangsverkefni því að það verður ekkert við það unað til frambúðar, það ástand sem er á Fjarðarheiðinni, og síðan þarf að halda áfram þar, tengja Austfirðinga saman með göngum um Mjóafjörð og yfir í Norðfjörð. Það þurfa að koma í fyllingu tímans göng undir Hellisheiði eystri þannig að hægt sé að aka með ströndinni og láglendi alla norðausturleiðina úr Ljósavatnsskarði og með ströndinni og síðan upp á Hérað. Og það þurfa að koma göng undir Siglufjarðarskarð og einhvern tímann koma göng sem þvera Tröllaskaga úr Hörgárdal yfir í Skagafjörð. Það er að vísu mikil framkvæmd, en hún er þjóðhagslega alveg gríðarlega góð vegna þess að hún mundi stytta leiðina um sennilega eina 20 km, 15, 20 km, og við værum að losna við (Gripið fram í.)einn erfiðasta fjallveg á meginumferðaræðum. (Forseti hringir.) Það er af nógu að taka en málið er bara að raða þessu skynsamlega upp og leggja plön sem horfa til nokkuð langrar framtíðar.