145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þeim mun alvarlegra verður það þegar maður horfir framan í algert frammistöðuleysi eins og verið hefur á þessu kjörtímabili hjá núverandi stjórnarflokkum í þessum málaflokki, að hafa í rauninni frammi fyrir þeim gríðarstóru verkefnum sem blasa við í þeim efnum algerlega sofið í málaflokknum, og í raun og veru erum við á síðustu metrum þessa þings að reyna að bjarga í horn fyrir stjórnarflokkana þegar kemur að því að a.m.k. afgreiða eina samgönguáætlun á kjörtímabilinu. Skárra væri það nú.

Til hliðar við þau gríðarstóru verkefni sem við höfum nefnt, sem væru eðlilegu skrefin á næstu tíu árum eða svo, þurfa menn auðvitað líka að fara í heildstæða uppbyggingu á almenningssamgöngukerfi þannig að það nýtist öllum, það sé tenging á milli helstu svæða, sé tenging á milli flugvalla.

Enn fremur vil ég nefna hjólreiðaáætlun. Það er engin hjólreiðaáætlun, engin áætlun í gangi í landinu um það hvernig menn ætla að byggja upp svo hægt sé að nota reiðhjólið sem samgöngumáta, bæði á milli sveitarfélaga og innan þeirra. Ég hef reynt að leggja fram í þinginu tillögu til þingsályktunar um það að menn hefji þannig vinnu, að það sé búin til áætlun á þessu sviði.

Enn fremur vil ég nefna sem hluta af langtímastefnu í samgöngumálum áætlanir sem taka mið af þróun mála í loftslagsmálum, að menn horfi til þess stóra málaflokks og hvernig við getum skilað af okkur í þeim efnum. Það er vissulega af nógu að taka.