145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef náttúrlega alltaf verið þeirrar skoðunar að langbest væri að Vegagerðin annaðist um allar svona framkvæmdir sjálf og ætti þær og líka gjaldtökuframkvæmdir. Ég var þó ráðherrann sem flutti frumvarpið um Hvalfjarðargöngin. En það var einfaldlega vegna þess að þá voru einkaaðilar, eða ekki einkaaðilar heldur sveitarfélög og ríkisfyrirtæki, bæði hálfopinber og opinberir aðilar, búnir að mynda félag og buðust til að annast um framkvæmdina fengju þeir leyfi til gjaldtöku. Niðurstaðan varð sú að flutt var um þetta frumvarp, ég flutti um það frumvarp og ég kláraði samninga við Spöl. Það var algjör forsenda af minni hálfu og kom aldrei annað til greina en þegar göngin hefðu verið greidd upp þá gengju þau til ríkisins. Það stóð ekki til að fara að vera með einkarekna búta af vegakerfinu til framtíðar. Í raun er Spölur ekki rekinn í hagnaðarskyni að öðru leyti en því að rekstraraðilinn hefur heimild til að taka inn tekjur eftir að lánin eru greidd upp þar til hann er búinn að endurheimta hlutafé sitt með vöxtum, þá afhendir hann ríkinu göngin. Þegar upp er staðið þá er þetta þannig framkvæmd og þetta er svona nær því að vera félagsskapur, sem á vondu máli er kallað „public-private partnership“ eða hvað það er.

Varðandi Noreg væri mjög gaman að fara yfir það, ég hef aðeins skoðað þau mál og fylgst með þeim. Norðmenn eru með miklu þróaðra módel í þessu en eiginlega nokkrir aðrir. Það er einfaldlega þannig að þeir meta það í tilviki hverrar stórframkvæmdar hvað er sanngjarnt eða eðlilegt að umferðin sem mun nýta mannvirkið borgi háan hluta kostnaðarins. Í sumum tilvikum getur það verið framkvæmdin öll sem þá væri endurheimt þannig á kannski 25, 30 árum, en í öðrum tilvikum er mannvirkið það dýrt og umferðin það lítil að það væri ósanngjarnt. Þá er hlutfallið lækkað. Þá eru vegtollarnir stilltir af miðað við það að þeir beri 75% kostnaðarins, 50% kostnaðarins, jafnvel bara 25%. Þetta gætum við mjög vel gert og hefðum (Forseti hringir.) átt að gera. Þá væri smá vegtollur í Héðinsfjarðargöngum, smá vegtollur yrði í Seyðisfjarðargöngum, en hann yrði stilltur (Forseti hringir.) af þannig að það væri sanngjarnt gagnvart umferðinni og bæri auðvitað aldrei (Forseti hringir.) nema hluta kostnaðarins.