145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að sjálfsögðu finnst mér að góðar og greiðar almenningssamgöngur eigi að vera hluti af okkar lífi, og eiginlega hvort sem er, þær eru líka mikið innlegg í loftslagsmálin og svo auðvitað að stuðla að orkuskiptum í öðrum samgöngum með hvetjandi aðgerðum.

En aftur að þessum skattlagningar- og gjaldtökumálum. Það þarf að móta heildstæða stefnu um þetta á Íslandi og hún er ekki til enn þá. Við getum að mínu mati í aðalatriðum lært af Norðmönnum. Þeir gera hvort tveggja, eru með sértæka vegtolla í stórum dýrum framkvæmdum, t.d. núna á vesturströndinni þar sem mikil hraðbraut er í byggingu frá Bergen og alveg upp til Þrándheims, en þeir eru líka með gjaldtöku í kringum Ósló, „bompenger“, á hraðbrautunum inn og út úr Ósló er líka gjaldtaka, þannig að þeir gera þetta hvort tveggja. Þeir stilla þessu svona af eins og ég sagði áður, að þeir taka tillit til þess hvað er sanngjarnt að umferðin greiði hátt hlutfall af kostnaði við viðkomandi framkvæmd.

Við reyndum þetta aðeins hér árið 2010 framan af ári í botni kreppunnar, við könnuðum möguleikann á því að ráðast í miklar framkvæmdir, tvöfalda veginn austur fyrir fjall og klára Keflavíkurveginn og leggja af stað upp á Vesturlandið og hvort vilji væri til þess að einhver gjaldtaka kæmi til. Flestir voru jákvæðir, en það vildi svo illa til að það átti svo að kjósa til sveitarstjórna um vorið þannig að einstaka sveitarstjórnir hlupu út undan sér og lögðust gegn þessu og varð ekki af þessu frekar.

Mér fyndist það alveg eðlilegt að þegar í boði er hraðbraut, tveggja akreina hraðbraut með aðskildum akstursstefnum, þá greiði sú umferð sem nýtur þess lítillega, aukalega fyrir það rétt eins og menn greiði fyrir það að stytta sér leiðina fyrir Hvalfjörð með því að fara undir hann. Það eru kannski aðalrökin fyrir vegtollunum, að tengja það við þau not sem menn fá af mannvirkjum. Menn stytta sér leið, menn aka á öruggari vegi, menn spara sér tíma, slit á bíl og allt þetta.

Það þarf auðvitað að réttlæta viðbótarskattlagninguna (Forseti hringir.) á þennan hluta umferðarinnar því að síðan borga allir sitt bensíngjald, olíugjald, þungaskatt o.s.frv.