145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[17:03]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir áhyggjur þeirra tveggja hv. þingmanna sem töluðu hér á undan mér varðandi svörin frá umhverfisráðuneytinu. Í fyrsta lagi bárust þau seint og í öðru lagi bárust þau illa. Það er rétt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir segir, við þurfum að geta treyst á að við getum sótt okkur sérfræðiaðstoð og þekkinguna sem býr í ráðuneytinu því að annars, virðulegi forseti, þurfum við að fara að búa til betra kerfi í kringum þingið og þingmennina. Það gengur náttúrlega ekki eins og það er núna, að við hv. þingmenn höfum ekki aðgengi að bestu mögulegum sérfræðingum eins og önnur þing hafa. Við þurfum miklu öflugri lagaskrifstofu til þess að geta sótt upplýsingar til. Það er því mjög alvarlegt þegar umhverfisráðuneytið bregst við með þessum hætti af því að við höfum ekkert annað að leita.