145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[17:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég sat ekki þann fund sem hv. þingmenn sátu sem töluðu á undan mér, en ég hlýt að lýsa yfir áhyggjum mínum þegar um er að ræða inngrip í lög og reglur sem við störfum samkvæmt almennt. Hér er um að ræða mjög alvarlegt inngrip sem rökstutt hefur verið með því að miklir hagsmunir séu undir og ekki síst þá ríður á að lagasetning sé eins vönduð og hægt er. Þar sem þessi lagasetning snýst um réttarfar á sviði umhverfis- og náttúruverndar er mjög einkennilegt að ekki sé hægt að fá upplýsingar frá því ráðuneyti sem er með þann málaflokk. Það er því ekki nema eðlilegt að gera alvarlegar athugasemdir við það því að það er okkar hlutverk hér á Alþingi að ef farið er í slík inngrip, sem eru mjög alvarleg, að tryggja það sé þá gert með eins vönduðum hætti og hægt er. Til þess þurfa allar upplýsingar að liggja á borðinu. Við ræðum hér um réttarumhverfi (Forseti hringir.) fyrir umhverfi og náttúru í landinu. Við viljum ekki taka ákvarðanir sem geta haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar hvað það varðar.