145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[17:07]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Ég verð að fá að bæta við það sem ég sagði áðan varðandi þetta mál að það er auðvitað grafalvarlegt þegar fulltrúar ráðuneytis koma eftir langa bið á fund okkar þingmanna og lýsa því yfir, í jafn afdrifaríku máli og hér er á ferðinni, að það sé gríðarleg óvissa á ferðinni um lagaleg áhrif þeirrar lagasetningar sem hér um ræðir, í hverri spurningunni á fætur annarri sé mikil óvissa á ferðinni. Við erum að tala um þá stöðu sem blasir þannig við borgurunum að það er ákveðinn kæruréttur sem verður til þegar framkvæmdaleyfi eru veitt. Úrskurðarnefndin, eftir því sem við komumst næst hér í þinginu, mun skila af sér í næstu viku. En áður en það gerist ætlar þingið að grípa inn í ferlið og hafa af borgurum kæruréttinn, aðkomu þeirra, og getur ekki veitt fullnægjandi svör um áhrifin sem af því hlýst. Það gengur ekki.