145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

höfundalög.

870. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Jóhanna María Sigmundsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, með síðari breytingum, þ.e. um eintakagerð til einkanota.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund marga gesti.

Á fundum nefndarinnar var mikið rætt um a-lið 1. gr. frumvarpsins. Samkvæmt þeim lið bætist nýr málsliður við 1. mgr. 11. gr. höfundalaga þess efnis að heimild til gerðar stafræns eintaks sé bundin við einstakling sem hefur lögmæt umráð eða aðgang að upprunaeintaki sem dreift er eða gert aðgengilegt með heimild rétthafa þess. Á fundi nefndarinnar lýstu fulltrúar ráðuneytisins sögulegum aðdraganda að þessu ákvæði og því að ákvæðinu væri ætlað að staðfesta það sem þegar teldist gildandi réttur. Hið sama kemur fram í athugasemdum frumvarpsins við a-lið 1. gr. þar sem segir jafnframt að ráðuneytið telji mikilvægt að áréttað verði í 11. gr. höfundalaga að heimild til stafrænnar eftirgerðar til einkanota verði framvegis bundin við lögmætan eiganda upprunalegs eintaks. Innan nefndarinnar átti sér stað nokkur umræða um að merking hugtaka kynni að vera óljós og um hugsanlegar afleiddar afleiðingar þessa ákvæðis, yrði því bætt við 11. gr. höfundalaga í óbreyttri mynd. Þá benti fulltrúi IMMI – alþjóðlegrar stofnunar um upplýsinga- og tjáningarfrelsi, á það á fundi nefndarinnar að a-liður 1. gr. frumvarpsins væri til þess fallinn að draga úr tilhneigingu rekstraraðila svo sem kaffihúsa, veitingastaða o.fl. til að bjóða upp á óheftan aðgang gesta að netinu af ótta við að gerast þannig hugsanlega sekir um lögbrot. Einnig vekti ákvæðið spurningar um hvort hversdagslegar athafnir á borð við að sækja skjöl af vefsíðum, t.d. með því að vista myndir eða myndbönd eða taka skjáskot af vefsíðu, teldust lögbrot ef sá sem það gerði gengi ekki úr skugga um að hann hefði lögmætan aðgang að upprunaeintaki þess sem hann vistar. Erfitt, jafnvel ómögulegt gæti orðið að meta hvort tiltekin hegðun stangaðist á við lög. Nefndin telur ljóst að umtalsverð óvissa ríki um túlkun ákvæðisins í a-lið 1. gr. frumvarpsins og telur heillavænlegt að nánari og upplýstari umræða fari fram um orðalag þess og ætluð áhrif þess og afleiðingar áður en það verður að lögum. Þar sem tilgangi ákvæðisins hefur verið lýst þannig að því sé ætlað að festa í sessi gildandi rétt telur nefndin skaðlaust að gildistöku þess að lögum sé frestað að sinni. Nefndin leggur því til að a-liður 1. gr. frumvarpsins falli brott en beinir því til ráðuneytisins að hafa milligöngu um nánari umræðu um ákvæðið þar sem andstæð sjónarmið verði rýnd og metin.

Á fundum nefndarinnar var jafnframt rætt um fjármögnun þeirra greiðslna sem renna skulu til höfunda vegna heimildar til eintakagerðar en samkvæmt b-lið 1. gr. frumvarpsins, sem verður 3. mgr. 11. gr. höfundalaga, skulu þær greiðast árlega með fjárveitingu samkvæmt fjárheimild í fjárlögum og er það breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Nefndin leggur áherslu á að fjárveiting þessi komi af sérstökum lið í fjárlögum og komi til að mynda ekki til skerðingar á framlögum til menningarmála.

Auk fyrrgreinds leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 2. mgr. 61. gr. höfundalaga og að 7. töluliður 2. mgr. 54. gr. höfundalaga falli brott. Er það gert til samræmis við þær breytingar sem verða á 11. gr. höfundalaga, verði frumvarpið að lögum, og þær breytingar á hugtakanotkun sem í frumvarpinu felast.

Að fyrrgreindu virtu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með tillögu um breytingu.

Undir álitið skrifa allir nefndarmenn. Þó skrifar Helgi Hrafn Gunnarsson undir álitið með fyrirvara um hugtakanotkun.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Haraldur Einarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álit þetta samkvæmt heimild í 4. mgr. 18. gr. starfsreglna forsætisnefndar Alþingis.