145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vekja athygli forseta á stöðu 6. dagskrármáls, um raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Það kom fram hér á föstudag, í hv. atvinnuveganefnd, að hæstv. umhverfisráðherra hafði hlutast til um það að nefndinni yrði ekki svarað efnislega að því er varðaði álitaefni um þetta þingmál. Það hlýtur að teljast mjög ámælisvert að umhverfisráðherra komi í raun í veg fyrir það að efnisleg svör berist þingnefnd. Af þeim sökum óskaði ég eftir því við formann nefndarinnar, og lét virðulegan forseta vita af því, að ég óskaði eftir því að skrifstofa þingsins tæki að sér að fara yfir ákvæðið, sem er 3. gr. frumvarpsins, er varðar breytingar á náttúruverndarlögum. Ég tel ótækt annað en að breytingar á náttúruverndarlögum fari í gegnum umhverfis- og auðlindaráðuneytið sem hefur þann málaflokk með höndum. Ég óskaði eftir því, í ljósi þessarar stöðu, að þingið færi yfir þetta sjálft. Forseti varð við því og óskað hefur verið eftir því að nefndasvið skoði málið sérstaklega. Ég tel af þeim sökum að við eigum að bíða með að hefja umræðu um 6. dagskrármálið þangað til niðurstaða skrifstofu þingsins liggur fyrir hvað þetta varðar.