145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

frumvarp um raflínur að Bakka.

[10:43]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það sem hér hefur gerst er að meiri hluti atvinnuveganefndar hefur tekið tillögu um breytingu á 3. gr. málsins, sem er frá iðnaðarráðuneytinu, og gert að sinni. Það er ekkert samkomulag hér um þá breytingu. Það er bara sama gerræðið í meiri hlutanum í þessu máli og verið hefur.

Staðreyndin er sú að kærufrestur í þessu máli virkjast við útgáfu framkvæmdaleyfa, það fer ákveðið ferli í gang og meiri hluti hér í þinginu er að stíga inn í það ferli vegna þess að hann vill ekki fá niðurstöðu. Eða vegna þess að hann vill ráða niðurstöðunni. Þannig er það. Auðvitað væri miklu snyrtilegra af núverandi stjórnarmeirihluta og þeim sem standa að þessu máli að leggja bara fram mál þar sem umhverfisráðuneytið á Íslandi er lagt niður. Það er það sem verið er að gera hér í þessu máli. Þetta er niðurlagning umhverfisráðuneytisins sem reyndar var talað um í upphafi þessa kjörtímabils og í raun bara hægt að óska stjórnarflokkunum til hamingju með að hafa tekist það ætlunarverk sitt.