145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

skipting fjármagnstekna og launatekna.

[10:46]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú fyrir helgina birti Kjarninn fréttaskýringu upp úr staðtölum frá ríkisskattstjóra þar sem farið er yfir dreifingu fjármagnstekna í landinu. Þar kemur fram að fjármagnstekjur hafi aukist töluvert á undanförnum árum og hafi verið á árunum 2015 95,3 milljarðar króna. Það sem vekur athygli í þessum tölum er að 44% þessara fjármagnstekna fóru til ríkasta eina prósents landsmanna, þ.e. sá hópur þénaði 44% af öllum fjármagnstekjum sem íslenskir skattgreiðendur fengu í fyrra, sem þýðir í raun og veru að 99% þjóðarinnar skiptu þá með sér 56% fjármagnstekna á árinu 2015.

Síðan er önnur frétt í Fréttablaðinu í dag um launaþróun í landinu þar fram sem kemur að helmingur allra greiddra launa í fyrra hafi farið til tveggja efstu tekjutíundanna og er vitnað til gagna Hagstofu Íslands. Sú þróun hefur aukist marktækt á undanförnum árum og er vitnað til þess að af þeim 200 milljörðum króna sem greiddar voru í laun á árinu 2015, umfram það sem var árið 2013, fari tvær af hverjum þremur krónum, og rúmlega það, til efstu tveggja tekjutíundanna, þ.e. til þeirra 40 þúsund einstaklinga sem hafa hæstar tekjur og eiga mestar eignir í þessu landi.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi áhyggjur af þeirri þróun, sem gæti verið ávísun á meiri ójöfnuð þó að Ísland hafi komið ágætlega út á Gini-stuðlinum undanfarin ár. Telur hæstv. ráðherra telji ástæðu til að gera einhverjar breytingar á skattkerfinu, til að mynda, til þess að auka jöfnuð, sérstaklega í ljósi þess að æ fleiri rannsóknir á alþjóðavísu benda til þess að aukinn (Forseti hringir.) jöfnuður skili líka aukinni efnahagslegri hagsæld?