145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

skipting fjármagnstekna og launatekna.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Síðast þegar OECD gerði samanburðarrannsókn á jöfnuði landa kom Ísland út í efsta sæti. Fyrir árið 2013 var ekki hægt að finna neitt land innan OECD-ríkjanna þar sem jöfnuður var meiri en á Íslandi.

Hér er minnst á tvennt; annars vegar að fjármagnstekjur séu að vaxa hjá tilteknum hópi landsmanna. Það ætti ekki að koma á óvart. Það hefur verið mjög mikill uppgangur, t.d. á hlutabréfamörkuðum, og við því að búast að þegar slíkir tímar eru sé það einkum hjá þeim sem eru með sparnað þar sem fjármagnstekjurnar skila sér. En það var jafnframt hópurinn sem tapaði langmestu af fjármagnstekjum og almennt af tekjum í hruninu.

Hér er sömuleiðis vísað til þess að ójöfn aukning sé í tekjum undanfarin ár og er vísað í ákveðna frétt í því samhengi. Í sömu frétt kemur fram að eignir allra landsmanna hafi vaxið á bilinu 13–20%, eignir allra tekjutíunda. Það eru stórkostlega jákvæðar fréttir. Það eru fréttir sem eru langt umfram það sem aðrar þjóðir hafa svo mikið sem væntingar um. Það eru góðar fréttir. Það eru fréttir um góðæri á Íslandi og það eru fréttir um það að aukin hagsæld okkar skilar sér til allra.

Við eigum hins vegar að fylgjast með því, sem hv. þingmaður segir, að það skili sér til allra, og sem betur hefur það gert það. Laun hafa líka hækkað hjá þeim tekjuhæstu. En það var einmitt hv. þingmaður sem kom hingað upp t.d. í læknadeilunni og talaði fyrir því að við hækkuðum laun þeirra sem hæst hafa launin, sérfræðinga á spítölunum og annarra slíkra, þannig að kjörin yrðu sambærileg við það sem best gerist annars staðar. Þegar við berjumst fyrir slíkri stefnu hækkum við jú laun þeirra sem mest hafa og hafa það best. Eigum við að bregðast við þeirri stöðu með því að hækka skatta? Ég segi nei.