145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

aðgerðir gegn skattundanskotum.

[10:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það eru viss mál sem hafa sérstaklega beinst að einstaklingsrekstri, smærri fyrirtækjum og kennitöluflakki. Ég nefni sem dæmi hnappinn svokallaða sem ætlað er að einfalda öll samskipti fyrirtækja við eftirlitsaðila þar sem gengið er út frá því að þeir sem ekki skila sínu verði afmáðir af skrá og að eftirlitið sé einfaldað og aukið.

Kennitöluflakk er ekki bara vandamál út frá skattheimtusjónarhorninu heldur er þetta miklu alvarlegra mál hvað snertir eðlilega og heilbrigða samkeppni. Það er óþolandi fyrir lítinn og meðalstóran rekstur, eða hvaða rekstur sem er ef því er að skipta, að samkeppnisaðilar komist upp með að koma alltaf fram undir nýrri og nýrri kennitölu, skila ekki lögbundnum gjöldum o.s.frv.

Að öðru leyti hvað varðar aflandsfélög þekkja menn að við höfum lagt hér inn ítrekað tillögur, frumvörp, og ég mun (Forseti hringir.) á næstu dögum sömuleiðis skila skýrslu um þau mál sem ég boðaði í vor varðandi umfang þeirra mála.