145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

samfélagsjöfnuður.

[11:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá fjármálaráðherra að í lok ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur var Ísland efst í jöfnuði í samanburðarlöndunum. En ég bið formann Sjálfstæðisflokksins um að eigna sér ekki heiðurinn af þeim árangri. Hann náðist vegna þess að við fengum loksins fjögur ár þar sem Sjálfstæðisflokkurinn réði ekki för. Undir forustu Sjálfstæðisflokksins jókst ójöfnuður hröðum skrefum í aðdraganda efnahagshrunsins. Hann er aftur byrjaður að vaxa. Vill ekki formaður Sjálfstæðisflokksins vera hreinskilinn og segja einfaldlega að þetta sé stefna flokksins, að hann sé ánægður með þennan árangur, með aukinn ójöfnuð? Hann hefur hækkað matarskatt á almenning en lækkað skatt á útgerðarmenn. Þetta snýr ekki bara að tekjunum. Ójöfnuður í eignaskiptingu vex líka. Efsti hlutinn eykur eignir sínar hlutfallslega, meira að segja hlutfallslega, helmingi meira en lægri hlutinn. Þá hljótum við að spyrja virðulegan fjármálaráðherra um eignarskatt ríkasta fólksins á Ísland, hvers vegna hann var ekki framlengdur, hvort það sé vegna þess að formaður Sjálfstæðisflokksins sé einfaldlega ánægður með að ríkasta fólkið á Íslandi auki eignir sínar miklu meira en aðrir í landinu. Sýna þessar tölur ekki svart á hvítu, hæstv. fjármálaráðherra, að ríkustu 5.000 heimilin í landinu hefðu vel getað haldið áfram að borga 10 milljarða í ríkissjóð á hverju ári til að standa straum af uppbyggingu á Landspítalanum, öflugra heilbrigðiskerfi og sterkari lífeyristryggingu? Eða var þetta meðvituð stefna flokksins um að auka á ójöfnuð, ekki aðeins í tekjuhlutanum heldur líka í eignamynduninni, stuðla að því að efnaðasti hlutinn á Íslandi efnist hraðar (Forseti hringir.) en allir aðrir í landinu?