145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta atvinnuveganefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um heimild til handa Landsneti hf. til að reisa og reka 220 kV raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka í Norðurþingi. Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fjölda gesta, m.a. frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, forsætisráðuneyti og síðan frá mörgum hagsmunaaðilum, þar með töldum sveitarfélögum, frá Landvernd, Fjöreggi o.fl.

Með lögum nr. 41/2013 var ráðherra veitt heimild til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi. Fyrir þann tíma hafði verið unnið að atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum um langt skeið. Í kjölfar þess að fulltrúar þýska fyrirtækisins PCC SE lýstu áhuga á að reka kísilmálmbræðslu á Bakka undirrituðu ríkisstjórnin og sveitarfélög á svæðinu viljayfirlýsingu um samstarf á sviði orkunýtingar og uppbyggingar innviða. Ljóst varð að ráðast þyrfti í mikla uppbyggingu innviða og voru framangreind lög því samþykkt á Alþingi. Þá gerði íslenska ríkið fjárfestingarsamning við PCC SE og við PCC BakkiSilicon hf. auk þess sem gerðir hafa verið samningar um sölu og flutning raforku við annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Landsnet.

PCC BakkiSilicon hf. hefur nú hafið byggingu kísilvers í landi Bakka við Húsavík og er áætlað að framleiðsla hefjist þar haustið 2017. Landsnet sótti um framkvæmdaleyfi til hlutaðeigandi sveitarfélaga til að reisa raflínur svo unnt yrði að fullnægja þörfum verksmiðjunnar. Umhverfismati vegna línulagnanna lauk árið 2010 og er gert ráð fyrir þeim í svæðisskipulagi háhitasvæða í Þingeyjarsýslum 2007–2025 og í aðalskipulagi sveitarfélaganna Norðurþings, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps. Að auki hefur verið fjallað um og lagt mat á umhverfisáhrif flutningsvirkjanna í fleiri ferlum líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið.

Framkvæmdaleyfi fyrir línulagnirnar voru gefin út í apríl og júní 2016. Útgáfa leyfanna var síðar kærð og í júní og ágúst á þessu ári komst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að þeirri niðurstöðu að framkvæmdir við línulagnir skyldi stöðva á meðan málið yrði tekið til meðferðar fyrir nefndinni. Almennt gilda lög ekki um atburði sem áttu sér stað fyrir gildistöku þeirra. Í nóvember 2015 tóku ný náttúruverndarlög gildi en í framangreindum úrskurðum var vísað til þeirra og stöðu framkvæmdaleyfa gagnvart þeim þó að lögin hafi verið sett þegar allt það ferli sem að framan er getið var yfirstaðið.

Úrskurðirnir setja framvindu málsins í mikið uppnám og er það mat þeirra sem koma að málum að sveitarfélög, fyrirtæki og opinberir aðilar verði fyrir verulegu fjárhagstjóni. Nú þegar hefur stöðvun framkvæmda við línulagnir kostað Landsnet tugi milljóna króna og má gera ráð fyrir enn frekara tjóni fyrirtækisins verði tafirnar meiri. Þá hefur sveitarfélagið Norðurþing lagt í verulega fjárfestingu í innviðum vegna verkefnisins og tafir vegna framkvæmdanna munu leiða til þess að það fær ekki rentu af þeim auk þess sem það verður fyrir beinum og óbeinum tekjumissi. Önnur sveitarfélög verða einnig fyrir tjóni vegna tafanna, þ.e. vegna seinkunar á útsvarstekjum og tekjum vegna fasteignagjalda, auk þess sem þau hafa jafnframt fjárfest í innviðum vegna verkefnisins. Fjárfesting PCC BakkiSilicon hf. nemur hátt í 40 milljörðum kr. sem að hluta er fjármögnuð af íslenskum lífeyrissjóðum. Auk þess hefur Vegagerðin fest mikið fé í göngum og vegtengingu milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka.

Í frumvarpi þessu er lagt til að Landsnet fái með sérlögum heimild til að reisa og reka raflínur frá Kröflustöð að Þeistareykjavirkjun og að iðnaðarsvæðinu á Bakka. Sett eru þau skilyrði að Landsnet fari að sömu skilmálum og mælt er fyrir um í framkvæmdaleyfum sveitarfélaganna og eru talin upp í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Með öðrum orðum er frumvarpið samhljóða gildandi skipulagsáætlunum sveitarfélaganna. Í 2. gr. frumvarpsins felst að þau framkvæmdaleyfi sem þegar hafa verið gefin út falla úr gildi og í 2. mgr. sömu greinar felst að umrædd sveitarfélög fara með eftirlit með framkvæmdunum og hafa þær heimildir sem kveðið er á um í skipulagslögum og reglugerð um framkvæmdaleyfi. Þá er í 3. gr. kveðið á um að ákvæði til bráðabirgða bætist við náttúruverndarlög þess efnis að 37. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, gildi um útgáfu leyfa til framkvæmda ef mat á umhverfisáhrifum hefur legið fyrir fyrir gildistöku laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

Í fylgiskjali með frumvarpinu er áskorun sveitarstjórna Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Norðurþings. Þar er lýst þungum áhyggjum af stöðu mála og farið fram á að ríkisstjórnin eða Alþingi grípi til ráðstafana til að leysa hnútinn, enda verði stefnu hvers sveitarfélags um landnotkun framfylgt. Fram kemur í frumvarpinu og við meðferð málsins hjá nefndinni að samráð hafi verið haft milli aðila áður en frumvarpið var lagt fram og hafi í þaula verið leitað leiða til að miðla málum. Sú vinna gekk ekki sem skyldi og talið er að ef breyta á línulögnum þurfi að breyta skipulagsáætlunum auk þess sem Landsnet þurfi að undirgangast mat á umhverfisáhrifum að nýju með tilheyrandi töfum.

Eins og áður er getið hefur undirbúningur að atvinnuuppbyggingu á Norðausturlandi staðið yfir í fleiri ár. Fyrir liggja staðfestar skipulagsáætlanir auk þess sem undirritaðir hafa verið samningar milli aðila. Vegna áðurnefndrar lagabreytingar í nóvember 2015 breytast aðstæður og framkvæmdir sem voru langt komnar í undirbúningi raskast með ófyrirséðum hætti. Meiri hlutinn telur þá stöðu sem komin er upp vera einstaka og að ekki sé annað hægt en að bregðast við. Meiri hlutinn telur alla jafna æskilegt að unnið sé eftir gildandi lögum og reglum og að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar geti tæplega verið hliðstæða síðar nema hagsmunir séu mjög veigamiklir. Jafnframt bendir meiri hlutinn á svigrúm löggjafans til lagasetningar og til að bregðast við telji hann að í óefni sé komið á tilteknu sviði og ef almannahagsmunir krefjast þess að höggvið sé á hnútinn.

Meiri hlutinn leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins í því skyni að takmarka gildistíma laganna og því skuli fara eftir nýrri náttúruverndarlögum um leyfi sem veitt eru eftir 31. desember 2017. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessari breytingartillögu. Undir það skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Páll Jóhann Pálsson, Höskuldur Þórhallsson og Þórunn Egilsdóttir.