145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:34]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er að teiknast upp að í þessum sal er verið að opna flóðgátt, en þessi sérlög áttu einungis að hafa með raflínur til Bakka að gera. Hér segir hv. formaður atvinnuveganefndar að lögin muni hafa áhrif á önnur verkefni, ég hef eftir það honum. Sérstaklega var lagt upp með að þessi aðgerð, það gerræði að fara inn í lögbundin ferli, ætti aðeins að eiga við um þessar línur því að það væru svo miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, það væri komin mengandi stóriðja á Bakka og það væri komin virkjun á Þeistareykjum, sem nóg var nú rifist um, og að það vantaði að setja línurnar þar á milli. Það eru svo gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir í húfi, við yrðum bara að gera þetta með óbragð í munni, var sagt. En nú er svo komið að þetta á að eiga við um aðrar línur líka. Blöndulínu? Mun þetta ekki líka eiga við um hana? Það er búið að opna á það hér. Það er engin feimni við að viðurkenna það. Það er ástæðan fyrir því að við áttum aldrei að samþykkja þessi lög hér. Við eigum að leyfa úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, að vinna vinnuna sína. Von var á að hún skilaði af sér í dag. Í dag. En það var greinilegt að fólk var hrætt við niðurstöðuna og framganginn á því máli.

Æskilegt er að farið sé að gildandi lögum, svona alla jafna, kom fram í máli hv. formanns atvinnuveganefndar. Hvenær á ekki að fara að lögum, hv. þingmaður? Er það þegar það hentar ekki stóriðjunni og stóriðjustefnu þessarar ríkisstjórnar? Hvenær á að fara eftir lögum og hvenær á ekki að fara eftir lögum? Er það eftir hentugleika (Forseti hringir.) okkar þingmanna? Það væri ágætt að fá að vita hvenær við eigum að fara að lögum í þessum sal og hvenær ekki.