145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[11:39]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek ekki ábyrgð á því hvað fyrrverandi ríkisstjórn gerði á síðasta kjörtímabili, en ég tek ábyrgð á því og tel það skyldu mína að við höldum ekki áfram með þá ömurlegu stefnu að setja hér á stofn mengandi stóriðju á Íslandi. Það er komið nóg af því. Þó að eitthvað hafi verið samþykkt fyrir tíu árum sem var vitleysa þá gerir það það ekkert betra og við eigum þá að hætta því núna. Fyrst við höfum tækifæri til þess að stoppa þetta af þá vil ég gera það. Vondar ákvarðanir sem teknar voru fyrir tíu árum eru enn þá vondar ákvarðanir.

Hér erum við að ræða þessi lög. Þau er orðinn hlutur að einhverju leyti. Málið fær ekki að hafa eðlilegan framgang af því að menn eru svo hræddir um að niðurstaðan hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála verði sú að línan þurfi að vera lögð á einhvern annan hátt en Landsnet vill. Það er nú stóra deilumálið hér hvort tekið verði aðeins meira tillit til náttúrunnar hvað það varðar. Það má ekki einu sinni. Við erum komin á vondan stað hvað varðar náttúruvernd þegar sérhagsmunirnir eru svona gríðarlegir í þessum sal.

Aðeins um lögin. Ef þarf að útskýra framgang málsins er sagt: Þetta er svo flókið, þessi náttúruverndarlög eru öll svo flókin, þessi lög um rammaáætlun eru öll svo flókin. En það er ekki svoleiðis. Þetta er afar einfalt. Það var enginn kæruréttur fyrir Landvernd og Fjöregg fyrr en framkvæmdaleyfið var gefið. Það er enginn annar kæruréttur í lögum. (Forseti hringir.) Svo getur verið að menn vilji breyta því. En nú erum við að fást við orðinn hlut og við þurfum að koma þessu frá okkur á réttan hátt.