145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[16:46]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni yfirferð yfir nefndarálit 1. minni hluta. Það eru tvær spurningar fyrst og fremst. Í fyrsta lagi langar mig að upplýsa í þessu andsvari að ég sendi úrskurðarnefndinni póst fyrir nokkrum mínútum og óskaði eftir upplýsingum um hvort úrskurða væri að vænta í þeim málum sem lúta að þeim framkvæmdum sem hér eru undir í þessari mjög svo óvenjulegu löggjöf. Rétt í þessu var mér að berast svar við þeirri fyrirspurn sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Úrskurðarnefndin er að funda um Kröflulínu 4, Skútustaðahreppi, kæru nr. 46/2016 og sá fundur gæti leitt til úrskurðar í dag en það er ekki víst.

Með kveðju, ritari nefndarinnar.“

Ég vil spyrja hv. þingmann, í ljósi þess sem fram kemur ágætlega í nefndaráliti 1. minni hluta að hér er um að ræða sérstakt og mjög óvænt frumvarp. Þetta er ekki löggjöf sem held ég að nokkurt okkar telji að sé til fyrirmyndar. Telur hv. þingmaður ekki að það væri málinu til góðs og réttarríkinu til framdráttar, ef maður má gerast svo uppskrúfaður, að bíða eftir niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, ekki síst vegna þess að hér með hefur verið staðfest að 1. hluti úrskurðarins kann að vera á leiðinni núna á næstu mínútum?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann í öðru lagi. Hér kom mjög skýrt fram að 1. minni hluti vill ekki að lagasetningin verði fordæmisgefandi: Hvað telur hv. þingmaður þá um það ákvæði 3. gr. sem beinlínis felur í sér breytingar á stöðu mála að því er varða Hvammsvirkjun og fleiri framkvæmdir sem þessu frumvarpi er alls ekki ætlað að breyta?