145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég vil ítreka að það sem ég fór yfir áðan er nefndarálit hv. þm. Kristjáns L. Möllers og þegar ég svara hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur er ég náttúrlega að svara fyrir mig en ekki fyrir Kristján. Ég vil taka það mjög skýrt fram.

Jú, ég er sammála hv. þingmanni um að ef svo er hefði mátt bíða. Ég er sjálf þeirrar skoðunar að sýna hefði átt meiri þolinmæði gagnvart því að fá úrskurð úrskurðarnefndarinnar, að ég tali nú ekki um ef hann berst núna á næstu mínútu eða klukkustundum. Þá held ég að væri rétt að fresta umræðu um þetta mál þangað til það liggur fyrir. Ég held að það sé ekki vilji margra að grípa fram í fyrir lögboðnum ferlum eins og þessu.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður spyr um 3. gr.: Ég segi eins og er að sá skilningur kom mér á óvart sem fram kom hér í morgun og ég hafði ekki heyrt um það í umræðum. Nú hef ég ekki setið í nefndinni en ég hafði skilið það þannig að þetta væri einstakt mál og að það ætti alls ekki að nota þessi lög til þess að smygla einhverju öðru góssi þar með. Það kemur mér mjög á óvart. Ég tel að það sé líka það sem lögð var áhersla á í nefndaráliti Kristjáns L. Möllers, sem ég las, hv. þingmaður leggur þar sérstaka áherslu á að hann telji ekki að þetta eigi að vera fordæmisgefandi. Ég mundi þá túlka það þannig að þetta kæmi honum líka á óvart, en það segi ég nú án (Forseti hringir.) allrar ábyrgðar.

(Forseti (SilG): Forseti vill minna hv. þingmenn á að nefna aðra hv. þingmenn með fullu nafni.)