145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að kominn sé úrskurður í einni af fjórum kærum sem lagðar voru inn. Það liggur þá fyrir að úrskurðurinn hafi hljóðað á þann veg að fellt sé úr gildi framkvæmdaleyfi það sem liggur fyrir varðandi Kröflulínu 4. Mér þykir málið vera þannig vaxið að við getum ekki haldið áfram að ræða það hér og nú miðað við það sem liggur fyrir fundinum, þ.e. að úrskurður er kominn. Ég tel að þessi niðurstaða hljóti að breyta málsmeðferðinni sem slíkri og löggjafinn og framkvæmdarvaldið hljóti að endurskoða þann málatilbúnað sem liggur fyrir þinginu og við ræðum hér. Ég tel mjög mikilvægt að við virðum þær kæruleiðir sem almenningi og félagasamtökum eru tryggðar. Nú liggur þetta fyrir. Ég tel að þá þurfi framkvæmdarvaldið að endurskoða það lagafrumvarp sem hér er lagt fram til að grípa inn í kæruferla með því að leggja fram frumvarp um nýtt framkvæmdaleyfi. Ég geri ráð fyrir að framkvæmdarvaldið meti það þannig að það taki málið aftur til sín og skoði það upp á nýtt. Það hefur afgerandi áhrif á allt málið að þessi niðurstaða liggi fyrir með þessum hætti og þeirri niðurstöðu, kæranda í hag, að úrskurðað er að draga skuli framkvæmdaleyfið til baka.