145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:14]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í niðurlagsorðum úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að ljóst sé að við undirbúning og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki í öllu verið gætt ákvæða skipulagslaga og náttúruverndarlaga auk þess sem sveitarstjórn fullnægði ekki rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Þykja þessir ágallar óhjákvæmilega leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem nánar hefur verið gerð grein fyrir.

Úrskurðurinn er í ítarlegu máli, en maður veltir fyrir sér í þeirri stöðu sem upp er komin hvort stjórnarflokkarnir séu svo áfram um að svína á rétti almennings í þessu máli og umhverfissamtaka að þeir muni núna taka til við að breyta stjórnsýslulögum og koma með eina litla viðbót við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar sem feli í sér breytingu á stjórnsýslulögum svo líka sé hægt að komast hjá þeim óþægindum sem það hefur í för með sér að fara að þeim lagabókstaf. Og þá kannski líka að fara í ákvæði skipulagslaganna og gera breytingu á þeim þannig að ekki þurfi heldur að fara eftir þeim. Auðvitað sýnir þetta að sá málatilbúnaður sem uppi verið hefur í þessu máli er verulega gallaður. Ef ekki er tilefni til þess núna fyrir meiri hlutann að gera hlé á þessum fundi til að fara í sínum ranni yfir það sem úrskeiðis hefur farið í þessum málum og reyna að taka þó alla vega eina rétta ákvörðun í þessu máli, þá veit ég ekki hvað. Ég held að það hljóti að vera að sá tímapunktur komi upp núna að forseti muni gera hlé á þessum fundi í ljósi þess að það þingmál sem hér er til umfjöllunar á ekki lengur við, það passar bara ekki þeim veruleika og tekur ekki á því ástandi sem er (Forseti hringir.) í stjórnsýslunni á Íslandi.