145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[17:21]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir allt sem hv. þingmaður gat um í andsvari sínu. Nú liggur fyrir að framkvæmdarvaldið og forseti Alþingis hafa metið stöðuna þannig, eins og við í umræðunni höfum gert tilkall til, að málinu verði frestað og tekið af dagskrá til þess að ræða niðurstöðuna, sem er auðvitað mjög afgerandi og setur málinu í allt annan farveg en það var í áður. Ég virði það við hæstv. forseta þingsins að taka þá fast á málum og ákveða að taka málið til skoðunar innan þingsins og að framkvæmdarvaldið skoði það sín megin. Það er það sem liggur beinast við að gera og gott að vita að brugðist sé strax við því fremur en að leiða málið áfram í einhverju tómarúmi. Við þurfum bara að sjá þann úrskurð sem verður í hinum fjórum kæruliðunum. Þess er ekki langt að bíða að hann liggi fyrir. Þetta er þannig mál að við verðum að virða lögbundna kæruferla. Úrskurður liggur fyrir. Þá getur framkvæmdarvaldið ekki ætlast til þess að það sé knúið áfram með bundið fyrir augun og ekki hlustað á þá niðurstöðu. En það er gott að vita að sú ákvörðun liggur fyrir að málið verður tekið af dagskrá núna til þess að skoða það í ljósi þess úrskurðar sem kynntur hefur verið af hálfu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.