145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[17:58]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og bent hefur verið á fyrr í þessari umræðu þá er það svolítið kostulegt að það er enginn meiri hluti í þessu mikla máli, frumvarpi um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Frumvarpið virðist vera lagt fram til að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins um að það eigi að afnema verðtryggingu á kjörtímabilinu.

Virðulegi forseti. Verðtryggingin er ekki vandamálið hér á landi. Verðbólgan er vandamálið. Það verður því miður stundum verðbólga og það er saga efnahagslífs hér á landi að það hafa verið miklar sveiflur í því, það hefur fyrst og fremst verið vegna þess hve gjaldmiðillinn er lítill, en eins og komið hefur fram er þetta minnsti gjaldmiðill í heimi, og svo hins vegar hve fábreytt efnahagslífið hefur verið hér á landi. Nú horfir það sem betur fer til betri vegar. Við erum komin með þriðju stoðina. Við höfum verið með sjávarútveg, álfyrirtæki og stóriðjuna og nú erum við komin með ferðaiðnaðinn og það sem meira er, virðulegi forseti, það sem er kallað annað í kökunni þegar skipt er niður í helstu atvinnuvegi, sá geiri eða sú sneið hefur stækkað líka. Það eru nýsköpunarfyrirtæki, skapandi greinar og annað slíkt. Sá hluti er líka að vaxa hér á landi og það er mjög ánægjulegt og vísar á það að kannski verða ekki jafn miklar sveiflur í efnahagslífinu hér á landi eins og verið hefur að undanförnu þó að það sé náttúrlega ljóst, virðulegi forseti, að meðan við erum með þennan litla gjaldmiðil, þessa krónu, minnsta gjaldmiðil í heimi, þá er alltaf hætta á meiri sveiflum í efnahagslífinu og þess vegna verðbólgu. Við höfum verið með verðtryggingu í lántökum til að eyða þeirri óvissu sem hlýst af því þegar mikil verðbólga er þannig að galdurinn við að afnema verðtryggingu á Íslandi, virðulegi forseti, er sá að koma í veg fyrir verðbólgu, það er galdurinn.

Í frumvarpinu er lagt til að 40 ára jafngreiðslulán verði bönnuð, þ.e. öllum nema einhverjum. Þessir einhverjir eru væntanlega um 70% af lántakendum og þeir eiga það sameiginlegt, virðulegi forseti, þeim sem á að banna að taka 40 ára lán, að vera eldri en 35 ára. Það þarf að hafa vit fyrir því fólki og það má ekki taka 40 ára jafngreiðslulán.

Mér finnst það eftirtektarvert í greinargerð með þessu frumvarpi, virðulegi forseti, að lögð er áhersla á það að einn vandi við 40 ára lánin sé sá að fólk viti ekki, átti sig ekki á hvernig þau virka og þeim áhrifum sem þau hafa og því sé nauðsynlegt að upplýsa fólk um það þegar það tekur lán hvernig lánin virka, sýna greiðsluflæði og þar fram eftir götunum. Vissulega er mikil nauðsyn á því. Ég minnist þess líka að þegar hæstv. fjármálaráðherra mælti fyrir málinu lagði hann sérstaka áherslu á það hvað það væri nauðsynlegt að lántakendur væru upplýstir um hvernig þau lán virka sem þeir taka.

Virðulegi forseti. Á sama tíma og áhersla er lögð á þetta þá er í frumvarpinu og greinargerð með því reynt að slá ryki í augu fólks sem mér finnst í svo mikilli andstöðu við það sem er haldið fram, að þörf sé á upplýsingu og fólk þurfi að vita hvað það er að gera.

Það er mikið vísað til nefndar eða sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar og sagt að þessar tillögur séu byggðar á því sem kom fram í þeirri skýrslu að einhverju leyti. Hins vegar er það alveg ljóst í erindisbréfi til nefndar um afnám verðtryggingar að sá hópur átti alls ekkert að fjalla um það hvort það væri skynsamlegt að afnema verðtryggingu eða ekki. Hann átti hins vegar að segja: Hvernig er hægt að gera það ef við ætlum að gera það? Hann átti ekki að dæma neitt um skynsemi þess. Þess vegna finnst mér undarlegt að nota þá skýrslu sem einhverja röksemd fyrir því að þetta frumvarp sé flutt.

Í annan stað finnst mér líka beinlínis ruglandi og ekki til eftirbreytni að í athugasemdum í frumvarpinu er verðtryggðum jafngreiðslulánum til langs tíma líkt við lán sem ekki fela í sér afborganir á höfuðstól. Það eru svokölluð „interest only loans“ og lán með neikvæðri höfuðstólsafborgun, sem á ensku heita „negative amortization“. Jafngreiðslulán, annuitetslán, til langs tíma eiga ekkert sameiginlegt með þessu láni, virðulegi forseti. Þau eiga ekkert sameiginlegt með þeim. Þess vegna er alveg undarlegt og til þess eins fallið að slá ryki í augu fólks að bera þetta saman.

Síðan er því haldið fram og alltaf verið að gefa í skyn að 40 ára jafngreiðslulán séu svo vond og eins og kom fram hjá hv. þm. Vilhjálmi Bjarnasyni eru þau kölluð Íslandslán. En 40 ára jafngreiðslulán eru ekkert verri á Íslandi en í útlöndum þar sem ekki er verðbólga. Eignamyndun í húsnæði eða einhverju sem fjármagnað er með 40 ára jafngreiðsluláni verður ekkert fyrr í útlöndum en hér. Það sem er sérstakt við íslensku lánin, það er sem er sérstakt hér á landi, er í fyrsta lagi verðtryggingin. Hún er vegna þess að hún eyðir óvissu, verðtryggingin eyðir óvissu. Hins vegar eru það hinir háu vextir sem eru á Íslandi. Vextirnir verða hærri hér en annars staðar þangað til við getum verið með stærri mynt. Á meðan við erum með þessa litlu mynt, minnsta gjaldmiðil í heimi, þá verður það einfaldlega þannig að vextir hér verða hærri en annars staðar. Það er það sem er sérkennilegt við 40 ára jafngreiðslulán hér á landi, að öðru leyti eru þau eins og annars staðar. Vandinn hér á landi er ekki 40 ára jafngreiðslulán. Vandinn er háir vextir. Vandinn er lítill gjaldmiðill. Minnsti gjaldmiðill í heimi.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lesa ítarlega nefndarálitið sem ég legg fram, en það liggur hér fyrir. Þar vitna ég í rit sem kom út hjá Seðlabankanum, ég held að það sé rétt að það sé rit Seðlabanka Íslands, Efnahagsmál númer 6 frá desember 2013. Þar er sýnt fram á að vextir af verðtryggðum lánum eru lægri til langs tíma en af óverðtryggðum lánum, heildarvextirnir. Síðan eru rakin nokkur dæmi um það að verðtrygging og verðtrygging lána eyðir fyrst og fremst óvissu til framtíðar.

Síðan eru það þessi kostulegu ákvæði í frumvarpinu um að þeir sem eru orðnir 35 ára megi ekki taka 40 ára lán. Mér finnast það svolítið kostulegt, virðulegi forseti, að það skuli vera fjármálaráðherra, sjálfstæðismaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem telji þörf á því að hafa svo mikið vit fyrir fólki að fólk sem er orðið 35 ára þurfi að passa sig á sjálfu sér og ekki taka lán til of langs tíma. Það er ljóst að lífaldur fólks kemur því ekkert við. Það hlýtur að vera ákvörðun hvers og eins hvort hann eða hún vilji vera búin að borga lán sín upp fyrir 65 ára aldur, 67 ára aldur, 75 ára aldur. Það hlýtur að vera ákvörðun hvers og eins. Mér finnst það alveg stórfurðulegt, virðulegi forseti, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli leggja fram frumvarp þar sem á að hafa vit fyrir fólki og segja: Þú skalt nú bara passa þig á því, góða mín, að vera ekki að skulda neitt þegar þú ert orðin 67 ára eða sjötug. Þetta er mér algjörlega óskiljanlegt, virðulegi forseti, vegna þess að auðvitað er það veðið sem skiptir máli en ekki lífaldur fólks. Ef ég er t.d. 67 ára — ég er nú ekki orðin 67 ára, virðulegi forseti — og vildi taka lán núna til 20 ára eða eitthvað svoleiðis, af hverju má ég ekki gera það? Ætlar ríkið að banna mér að taka lán út á mína eigin eign og skipa mér að skilja eignina eftir veðlausa fyrir erfingjana til að leysa út þegar ég komin undir græna torfu?

Virðulegi forseti. Hvers konar forsjárhyggja liggur eiginlega í þessu frumvarpi? Ég er algjörlega steinhissa á þessu. Ég segi það alveg eins og er.

Ég ætla ekkert að lengja þetta, virðulegi forseti. En ég legg áherslu á það að engin rök standa til þess að banna 40 ára jafngreiðslulán. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn frumvarpinu.