145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

vextir og verðtrygging.

817. mál
[18:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hérna upp til að þakka fyrir mjög fróðlega framsögu og áhugaverð sjónarmið sem komu þarna fram. Ég vil leiðrétta þetta áhyggjuefni um eldra fólk sem gæti ekki veðsett eða tekið lán út á húsin sín. Það mun geta það áfram eftir sem áður en þau verða ekki til 40 ára, en hugsanlega til 25 ára, og í ýmsu öðru formi en sem verðtryggð jafngreiðslulán. Eldra fólk getur tekið ýmiss konar önnur lán hafi það hug á að fara þá leið sem hv. þingmaður ræddi um og gæti verið áhugaverð. Ég get alveg tekið undir það sjónarmið að það getið verið skynsamlegt fyrir fólk sem er komið á efri aldur og vill láta eitthvað eftir sér með því að skuldsetja íbúðina sína. Það getur alveg verið skynsamlegt að gera eitthvað af því. Það er hægt að gera ef veðið er innan við 50%, þá er hægt að taka lán til 50 ára. Ég vil bara benda á að möguleikarnir eru enn þá fyrir hendi.

Ég vildi benda á þetta en vildi líka spyrja hv. þingmann um annað vegna þess að við erum sammála um að hér eru vextir of háir, algjörlega sammála um það. Auðvitað er ein ástæða fyrir því að hér er lítið hagkerfi, óstöðugt hagkerfi og slík kerfi eru í eðli sínu sveiflukenndari en stærri hagkerfi. Smærri gjaldmiðill er líka hugsanlega í eðli sínu með hærri vexti. Þó er nú samt reynsla okkar undanfarin ár að íslenska krónan hefur verið mjög stöðug, stöðugri en evran og dollarinn gagnvart hvort öðru og pundi.

Fyrir nefndina kom doktor Ólafur Margeirsson sem sendi mjög áhugaverða ritgerð eða umsögn um þetta þar sem hann færði rök fyrir því, sem mér fannst nokkuð sannfærandi og vil spyrja hv. þingmann hvort hún hafi lesið þessa umsögn, og leiðir líkur að því að þótt verðtrygging í litlum mæli sé ekki skaðleg geti hún verið skaðleg þegar hún er orðin mjög útbreidd. Hún geti leitt til þess að stýrivextir þurfi að vera 1–2% hærri en ella. Þess vegna sé (Forseti hringir.) mikilvægt að draga úr útbreiðslu verðtryggingar til þess að stýrivextir geti lækkað fyrir alla.