145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[19:50]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar aðeins að ræða þetta mál af því að það er kannski eitt af þeim stóru málum sem við erum öll að takast á við, hvort heldur flokkar sem eru nú í ríkisstjórn eða við sem erum í stjórnarandstöðu, þetta er viðfangsefni dagsins, þ.e. húsnæðismál, sérstaklega ungs fólks. Þess vegna fannst mér tilhlýðilegt að ræða aðeins um þá leið sem hér á að fara, tillögu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þ.e. um þennan stuðning til kaupa á fyrstu íbúð með séreignarsparnaði.

Ég sagði strax þegar þessi leið var farin á sínum tíma, að nota séreignarsparnaðinn, að mér þætti hún ekki góð og mér þykir hún ekki góð. Það hefði átt að heita eitthvað annað en séreignarsparnaður því að það var hugsað til þess að þegar við kæmumst á efri ár þá væri þetta okkar lífeyrir, viðbótarlífeyrir, svo við hefðum það kannski þokkalegt, þeir sem geta þó lagt fyrir. En eins og hér hefur verið rakið geta auðvitað ekki allir lagt í séreignarsjóð.

Það hefur ýmislegt verið reynt í gegnum tíðina, hvort sem það voru sparimerkin eða hvað það nú var, þá var það vissulega leið til þess að safna sér fyrir útborgun til að kaupa fasteign. Það var þó í sjálfu sér ekki bundið við eina og sömu fasteignina af því að maður þurfti ekki að leysa allt út í einu. En ég held að sú leið sem hér er lögð til, og það kemur í rauninni fram í áliti meiri hlutans að hún sé ekki nægjanlega ígrunduð. Það kom fram í máli þeirra sem á undan mér hafa talað að engar sviðsmyndir eru fyrirliggjandi um áhrifin, hin ýmsu áhrif. Það eina sem við vitum er að þetta hefur mikil áhrif á ríki og sveitarfélög, sérstaklega sveitarfélög.

Ég var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem var haldin fyrir skömmu þar sem ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir það tekjutap sem nú þegar hefur orðið af hálfu þeirrar leiðar, af því að verið er að taka frá sveitarfélögum tekjur til framtíðar. Þótt hér sé sagt og fjármálaráðherra hafi orðað það með þeim hætti að það eigi að skila sér inn í hærra útsvari eða einhverju slíku til handa sveitarfélaginu eða hærri fasteignasköttum, þá er það ekkert í hendi. Fasteignamarkaðurinn á stórhöfuðborgarsvæðinu er allur annar en víða annars staðar. Verið er að tala um að fólk hafi það svo miklu betra og þess vegna séu vaxtabætur orðnar miklu lægri en þær voru, það er auðvitað að stórum hluta vegna þeirra ákvarðana sem ríkisstjórnin hefur tekið. Og svo er eitt sem vegur töluvert þungt að fasteignamat, sérstaklega á stórhöfuðborgarsvæðinu, hefur auðvitað hækkað sem eykur á eign fólk, en það breytir því ekki að það hefur ekkert meira á milli handanna til að framfleyta sér. Það er það sem þetta snýst um, að fólk þarf að hafa burði og getu til þess að leggja fyrir til að geta átt fyrir íbúðakaupum.

Það sem kemur fram hjá meiri hlutanum er að ef sparnaður eykst verulega, eins og þetta frumvarp er útbúið, þá rýrir það tekjuskattsstofn ríkisins í einhverjum mæli, bæði hvað varðar einstaklinga og lögaðila, en veltuskattarnir og örlítil aukning í tryggingagjaldinu er það eina sem þar er sagt koma á móti en engin sérstök rök færð fyrir því.

Ég verð líka að taka undir þá hugsun að séreignarstefnan er mjög rík í okkar samfélagi. Ég kem úr litlu samfélagi. Þar er hún mjög rík. Þeir leigja bara sem geta ekki keypt. Það hefur ekki endilega verið í gegnum tíðina af því að fólk vilji ekki eignast, heldur hefur það verið á hinn veginn. Núna er það bara val, eins og kom fram hjá hv. þingmanni sem talaði á undan mér. Ungt fólk vill bara hafa þetta val. Það vill geta tekið sig upp og hreyft sig, farið hvert sem er án þess að vera skuldbundið af því að eiga fasteign og þurfa jafnvel að standa í einhverri sölu eða slíku. Það er eitthvað sem við þurfum að einblína fyrst og fremst á, það er ákallið núna. Ákallið er ekki um mikla séreignarstefnu. Þó að ég sé alls ekki á móti henni, svo það sé sagt hér, þá vil ég að hvort tveggja sé og að tækifæri séu til staðar til að geta gert hvort tveggja. Það er einmitt það sem ég sagði áðan, að í dag horfir þetta ekki þannig við að leigumarkaðurinn sé fyrir þá sem geti ekki keypt heldur er það þetta sérstaka val.

Hér hefur verið minnst á kynslóðareikninga og það er auðvitað dapurt. Það er það sem við eigum að einbeita okkur að. Við eigum að einbeita okkur að því að bæta kjör, þá meina ég laun ungs fólks. Það eru auðvitað sláandi upplýsingar hversu gríðarlega mikið sá hópur hefur dregist aftur úr. Ég skil eiginlega ekki af hverju það hefur ekki verið meira í umræðunni af hálfu ríkisstjórnarinnar frekar en að vera í svona sértækum aðgerðum. Við höfum rætt mikið um kjör eldri borgara. Við höfum rætt um kjör öryrkja, en við höfum rætt miklu minna um kjör ungs fólks. Það er hálfdapurt því að þetta er auðvitað það sem fólkið tekur við og því þarf að hlúa betur að því. Og hluti af því er að styðja við það í formi húsnæðismála. En fyrst og fremst held ég að við þurfum að huga að því hvernig við getum gert það í formi ráðstöfunartekna. Við höfum hins vegar rætt mikið um lækkun á barnabótum og vaxtabótum. Það er partur af því sem telst til ráðstöfunartekna barnafjölskyldna og þar hefði t.d. verið hægt að gera betur, ekki bara draga úr og ekki bara halda í við eins og það hefði þróast ef ekki hefði verið hreyft við því, heldur að gera enn betur.

Fram kemur í áliti 1. minni hluta þegar talað er um aðstöðu ungs fólks og það að beina sjónum að því að bæta kjör þess, þá er minnst á að það er ekki einungis verkalýðsforustan eða annað slíkt sem bendir á þetta heldur kemur það frá hinum kantinum líka, t.d. frá Viðskiptaráði, að ekki sé verið að ráðast að rót vandans, sem sé óhagfellt launaþróun yngri kynslóða. Þar er bent á að skynsamlegra sé að leggja fram aðgerðaáætlun um þau efni fremur en að bæta við, eins og þeir nefna, enn einu stuðningskerfinu í húsnæðismálum.

Það eru í sjálfu sér kannski ekki svo gríðarlega margir sem geta nýtt sér þetta. Það kemur fram frá Allianz sem hefur haft heimild frá 2002 til að bjóða viðskiptavinum sínum samning um tryggingavernd, þ.e. ákveðna séreign, að viðskiptavinir þess sem munu ekki geta nýtt sér þetta úrræði eru í kringum 22.000 Íslendingar. Hópurinn er ekki stærri en hér er talað um, þetta ekki nema mjög lítill hluti ungs fólks, þetta er kannski fólk á miðjum aldri og eldra, eða þá fólk sem er í háum launaskala og þarf þá ekkert endilega á þessu að halda, þ.e. einhverjum stuðningi.

Svo finnst mér líka mismunun í því, sem hefur verið nefnt, að binda þetta eingöngu við fyrstu íbúðarkaup, sérstaklega í ljósi þess að ekki er lengra liðið frá hruni, að fólk sem missti allt sitt vegna þeirra aðstæðna sem hér mynduðust skuli ekki geta nýtt sér þetta færi ef það verður að veruleika, þó að ég sé ekki hlynnt því, að þá er enn verið í rauninni að gera upp á milli ákveðinna hópa. Verið er að mismuna fólki mjög. Þetta kemur því fólki auðvitað ekkert að gagni sem hvað verst stendur. Ég held að það sé alveg viðurkennt að þetta gagnast ekki þeim hópi sem hvað verst stendur. Ég hefði viljað sjá einhverja aðra nálgun í þessu samhengi. Það hefur líka verið bent á að fjármuni skorti til að þau húsnæðisfrumvörp sem hér hafa verið samþykkt geti náð þeim tilgangi sem þeim var ætlað.

Einnig hefur verið bent á að skynsamlegt hefði verið að forgangsraða skattfé í húsnæðisstuðning og til uppbyggingar í almenna leiguíbúðakerfinu þannig að kjör ungs fólks væru raunhæf sem væri kannski leið til að það gæti komið sér upp einhverju sparifé til að leggja inn í útborgun, því að þetta er langur tími eins og lagt er upp hér. Mig minnir að það taki um tíu ár að safna fyrir íbúð á meðalverði. Þá enn og aftur miða ég auðvitað við hver fjöldinn er. Það getur hreinlega ekki verið það sem við viljum gera. Við erum að reyna að leysa vanda dagsins í dag. Auðvitað veit ég og geri mér grein fyrir því að það gerist ekki yfir nótt, það er ekkert pennastrik í því og það tekur tíma að byggja húsnæði til að mæta þessum þörfum. En það á að byggja fáar íbúðir og langt, langt undir því sem þörfin er. Talað er um að stjórnvöld ætli að styðja við í kringum 400 íbúðir á ári, þ.e. samkvæmt ríkisfjármálaáætlun á næstu fimm árum. Miðað við það sem hefur komið fram hjá þeim sem gerst þekkja til í þessum bransa þá liggur það fyrir að það dugar engan veginn til.

Það eru mjög margir sem benda á að þetta sé ekki úrræðið en samt á einhvern veginn að halda þessu til streitu. Maður hefur velt fyrir sér hvort þetta sé svona kaup kaups eða hvort báðir stjórnarflokkarnir séu sannfærðir um að þetta sé besta leiðin sem hægt sé að fara gagnvart þessum hópi, þ.e. unga fólkinu og svo þeim tekjulágu.

BSRB hefur bent á í umsögn sinni að fjárhæðirnar sem einstaklingar eða sambúðaraðilar geti lagt fyrir með þessum hætti eða safnað fyrir séu allt of lágar til að geta staðið undir þeirri útborgun sem þarf að greiða, þ.e. þessum 20% miðað við fasteignaverð eins og það er í dag og hvað þá eftir fimm ár ef þróun fasteignaverðs gengur eftir eins og gert er ráð fyrir.

Af því að hér var líka aðeins rætt um vextina, vaxtakjörin og verðtrygginguna og það allt saman þá er það líka eitt af því sem maður horfir á að eitt frumvarp leggur hömlur á verðtryggð lán handa tilteknum hópi fólks. Áfram er aðgreining í gangi á meðan í LÍN-frumvarpinu, sem liggur fyrir þinginu, er verðtryggingin fest í sessi til 40 ára. Óhætt er að segja að það skarast töluvert það sem ríkisstjórnin er að leggja fram. Það virðist vera vegna þess að stjórnarflokkarnir nálgast þetta á ólíkan hátt og hafa mismunandi skoðanir á því og virðast ekki hafa náð saman um það hvernig þeir eiga að mæta þessu.

Þegar við tölum um vexti og verðtryggingu þá hafa vaxtabæturnar þar gjarnan fylgt. Árið 2011 voru þær tæplega 19 milljarðar, en gert er ráð fyrir í fjárlögum þessa árs að þær séu bara rétt um 6 milljarðar og hafa lækkað í kringum 70% á fimm árum. Það er vegna þess að regluverkinu hefur verið breytt og svo hefur fasteignamatið hækkað og tekjur hjá einhverjum tekjuhópi hafa vissulega hækkað sem betur fer.

Ég ætla aðeins í restina að fara inn á það sem Jafnréttisstofa gerir að umtalsefni, þ.e. kyngreindar upplýsingar um hvernig þetta kemur fram gagnvart kynbundnum launamun. Það snýr að því þá að konur og náms- og starfsval kvenna og kynjanna hefur einkennst af því að konur eru gjarnan í störfum, eins og við þekkjum og höfum rætt ítrekað hér á Alþingi, sem eru lægra launuð. Og svo er það þessi óútskýrði launamunur sem þýðir að konur eru launalausar í 40 daga á ári, margar hverjar og stór hluti þeirra. Þær eru auðvitað líka í hlutastörfum, og þá er það þannig að sparnaður þeirra verður að öllu eðlilegu minni en karlanna sem ýtir þá enn frekar undir þennan launamun. Það segir í rauninni að út frá þessum staðreyndum sé verið að endurspegla kerfislægt misrétti kynjanna þegar kemur að launamun. Má draga þá ályktun einmitt að skattahagræðið og möguleg eignamyndun nýtist körlum fremur en konum. Það er kannski það sem þetta snýst líka um.

Svona alveg að lokum vil ég segja að þessi mismunun sem ég hef talað töluvert um endurspeglar enn og aftur, því miður, mjög margt sem þessi ríkisstjórn hefur gert, þ.e. að þeim sem hafa það betra er gefið meira tækifæri en þeim sem þyrftu á aðstoðinni að halda og leiðirnar og þræðirnir virðast ekki liggja þar til að nálgast þá hópa. Ég get einhvern veginn ekki fellt mig við það hvort heldur sem er að nýta sameiginlega sjóði okkar skattgreiðenda til að mismuna ólíkum hópum, hvort sem það er að fá hærri skattafslátt eða í því formi að lagt sé fyrir, en þeir tekjulægri geti það ekki, margur hver alla vega. Þetta er í rauninni svo ólíkt því kerfi sem við komum okkur upp hérna á sínum tíma. Það var einmitt ágætlega farið yfir það, svo ég vitni aftur í fjármálaráðstefnu sveitarfélaga, af Guðrúnu Ágústu Guðmundsdóttur, hjá ASÍ, hvernig þetta byrjaði allt saman, þessi húsnæðisstuðningur og hvernig hann hefur svo þróast.

Ég kem ekki til með að styðja frumvarpið því að mér finnst þetta, eins og ég hef farið yfir, fara gegn hugmyndafræði minni og okkar Vinstri grænna þar sem við viljum nota ríkisfé miklu fremur til þess að styðja við þá sem höllum fæti standa í samfélaginu frekar en að styðja við þá sem hafa það bara ágætt og þurfa í rauninni ekkert á þessu að halda umfram aðra.