145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Páll Jóhann Pálsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016 frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Þór Hermannsson og Lúðvík Guðjónsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti. Frumvarpið er með óhefðbundnu sniði miðað við undanfarin ár þar sem það tekur aðeins til tiltölulega fárra ófyrirséðra útgjaldamála en endurmat á tekjum og lánamálum kemur ekki við sögu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 46 fjárlagaliðum á gjaldahlið sem leiða til 88.003,4 millj. kr. hækkunar heimilda. Meiri hlutinn gerir tillögu um samtals 554 millj. kr. hækkun til viðbótar. Gjaldaheimildir fjárlaga fyrir árið 2016 námu 695.071,2 millj. kr. á rekstrargrunni og ef frumvarpið verður samþykkt verða þær samtals 783.628,6 millj. kr.

Endurmat á afkomuhorfum: Tafla á bls. 19 í frumvarpinu gefur góða yfirsýn yfir endurmat gjalda og tekna innan ársins. Þar koma fram afkomustærðir með og án stöðugleikaframlaga. Frumjöfnuður, þ.e. afkoma fyrir utan fjármagnstekjur og gjöld, var áætlaður um 400 milljarðar kr. að meðtöldum stöðugleikaframlögum en um 63,6 milljarðar kr. án þeirra. Nú er áætlað að frumjöfnuður verði 379,8 milljarðar kr. með stöðugleikaframlögum en 2,8 milljarðar kr. án þeirra. Endurmat á tekjum ríkissjóðs gerir ráð fyrir 37,1 milljarðs kr. hækkun tekna fyrir utan stöðugleikaframlögin en 77,5 milljörðum kr. að þeim meðtöldum. Á gjaldahlið munar langmest um 83,5 milljarða kr. uppgjör vegna A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en gerð er grein fyrir því í frumvarpi um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem nú liggur fyrir Alþingi, mál nr. 873. Þess má geta að því miður er útlit fyrir að þetta samkomulag sé brostið, eins mikilvægt og það er nú og mikil vinna að baki því. Ég á von á því að síðar komi breytingartillaga um þetta mál.

Aðrar breytingar á áætlun gjalda nema samtals 14,4 milljörðum kr., þar af er 5 milljarða kr. hækkun fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér og færist líka á tekjuhlið fjárlaga.

Samkvæmt áætlun í lánamálum verða nokkrar breytingar frá því sem áætlað var í fjárlögum ársins. Að mestu næst að lækka skuldir eins og ráðgert var en veigamesta forsendubreytingin frá fjárlögum liggur í því að ekki er lengur gert ráð fyrir að selja 30% eignarhlut í Landsbankanum til þess að greiða niður skuldabréfaflokk sem gefinn var út til að endurfjármagna bankana. Hluti stöðugleikaframlaga hefur þess í stað verið nýttur til að fjármagna kaup fyrir um 26 milljarða kr., auk 4 milljarða kr. af innstæðu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Áætlað er að nýta um 30 milljarða kr. til viðbótar af stöðugleikaframlögum til að greiða niður skuldir það sem eftir lifir árs. Stöðugleikaframlögum hefur að öðru leyti verið ráðstafað til að greiða niður um 25 milljarða kr. skuldabréf sem ríkissjóður gaf út til Seðlabanka Íslands en í stað þess að greiða það að fullu var ákveðið að greiða upp erlenda lántöku sem nemur 64 milljörðum kr. Það var gert í ljósi sterkrar stöðu gjaldeyrisforðans og fjármagnað með erlendum innstæðum Seðlabankans.

Fyrir utan fyrrnefnt framlag til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem breytingartillaga er væntanleg um, er í frumvarpinu að finna tillögur sem varða samtals 39 liði á gjaldahlið A-hluta fjárlaga sem eiga það sammerkt að ýmist er um að ræða mál sem voru ófyrirséð við afgreiðslu fjárlaga eða teljast nú brýn eða óhjákvæmileg, m.a. vegna nýrrar lagasetningar og ákvarðana stjórnvalda. Framlögin nema samtals 4.503,4 millj. kr. Þar vegur þyngst 1.500 millj. kr. framlag vegna samkomulags um forsendur þjónustu og rekstur hjúkrunarheimila og 800 millj. kr. framlög vegna mikillar fjölgunar umsókna um hæli á Íslandi umfram forsendur fjárlaga. Sú fjárhæð dreifist á nokkra fjárlagaliði innanríkisráðuneytisins. Þá er í frumvarpinu reiknað með 562 millj. kr. vegna kostnaðar við kosningar til Alþingis og 427 millj. kr. vegna upptöku á nýjum svokölluðum S-merktum lyfjum. Einnig er lagt til 216 millj. kr. framlag í aðgerðir til að bæta öryggi ferðamanna. Annað vegur minna og dreifist á marga fjárlagaliði.

Um breytingartillögurnar: Meiri hlutinn leggur til sex breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi millifærslu vegna mistaka við vinnslu frumvarpsins þar sem 37,5 millj. kr. tillaga um framlag til aukins skatteftirlits var ranglega skráð á lið 09-214 Yfirskattanefnd en lagt er til að hún færist þess í stað á lið 09-215 Skattrannsóknarstjóri ríkisins í samræmi við fyrirætlan stjórnvalda, samanber texta í athugasemdum með frumvarpinu.

Í öðru lagi er gerð tillaga um nafnbreytingu á lið 04-406 Haf- og vatnarannsóknir þannig að hann nefnist Hafrannsóknastofnun í samræmi við heiti stofnunarinnar samkvæmt lögum nr. 112/2015. Meiri hlutinn gerir ráð fyrir að samsvarandi nafnbreyting verði gerð í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár.

Í þriðja lagi er gerð tillaga um 38 millj. kr. framlag til Stjórnstöðvar ferðamála á liðnum 04-559 1.41 í því skyni að efla menntunarstig starfsfólks innan ferðaþjónustunnar. Framlaginu er ætlað að nýtast til stofnunar þekkingarseturs ferðaþjónustunnar og til að undirbúa starfsnám í ferðaþjónustu.

Í fjórða lagi er gerð tillaga um 100 millj. kr. framlag til lögreglustjórans á Suðurnesjum á lið 06-312 til þess að fjármagna aukna landamæravörslu á Keflavíkurflugvelli vegna fjölgunar ferðamanna. Áætlað er að farþegum um ytri landamæri á Keflavíkurflugvelli fjölgi um 30% frá síðasta ári. Samkvæmt mati Isavia lengist biðtími farþega sem millilenda í Leifsstöð í allt að 3 klst. á álagstíma ef ársverkum landamæravarða verður ekki fjölgað um átta til níu. Á undanförnum árum hefur Isavia til bráðabirgða fjármagnað hluta af aukinni landamæragæslu en því verkefni er nú lokið og lögregluembættið ber sjálft allan kostnað af gæslunni.

Í fimmta lagi er gerð tillaga um 350 millj. kr. framlag í tengslum við innleiðingu á nýju greiðsluþátttökukerfi fyrir heilsugæsluna á liðnum 08-500 1.10 Heilsugæslustöðvar, almennt. Gert er ráð fyrir að í tengslum við nýtt kerfi þurfi að fjölga stöðum í heilsugæslunni, einkum heimilislækna og hjúkrunarfræðinga.

Loks er gerð tillaga um 66 millj. kr. framlag á liðnum 02-318 Framhaldsskólar, stofnkostnaður til að ljúka framkvæmdum og tækjakaupum vegna verknámshúss við Fjölbrautaskóla Suðurlands. Um er að ræða 60% af kostnaðaráætlun og er framlagið skilyrt því að viðkomandi sveitarfélög fjármagni þau 40% eða 44 millj. kr. sem upp á vantar til að taka megi húsið í fulla notkun.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Ég vek aftur athygli á því að breytingartillögu er að vænta út af A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Valgerður Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir þetta rita Vigdís Hauksdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ásmundur Einar Daðason, Ásmundur Friðriksson og Páll Jóhann Pálsson.