145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri það á hv. þingmanni að hann er ekki alveg með það á hreinu hvað þarna býr að baki. Ég er mjög hlynnt því að mennta fólk í ferðaþjónustunni, ég tel gríðarlega mikla þörf á því. Þetta snýst ekkert um að ætla að leggja þingmönnum á næsta kjörtímabili reglurnar heldur er þetta stofnun Þekkingarseturs ferðaþjónustunnar. Við erum að búa til eitthvað nýtt og við hljótum um leið að vera að segja að það sé komið á föst fjárlög eða eitthvað slíkt. Þess vegna spyr ég hvort um sé að ræða einskiptisframlag sem dugar til að stofna þetta eða hvort þar verði framhald á. Ég mundi áætla, hvort sem framlagið fer til Stjórnstöðvar ferðamála og er sérmerkt þessari stofnun eða ekki, að þá komum við til með að þurfa að leggja til fjármuni í þetta. Ég mundi vilja vita það og við getum kannski fengið þær upplýsingar þar sem málið fer til nefndar á milli umræðna. Það kom ekki fram, á þeim örstutta fundi sem við sátum, þar sem málið var tekið út, hvað byggi þarna að baki.

Það er til eitthvað sem heitir Menntaskólinn í Kópavogi og þar hefur ferðamálanám verið stundað og það er spurning, þegar maður veltir þessu fyrir sér, hvort við séum að dreifa kröftunum. Kannski ekki, kannski er þetta miklu betri farvegur en það sem til er nú þegar. Um það skal ég ekki segja vegna þess að ég þekki það ekki og hefði því viljað fá um það upplýsingar. Ég kalla eftir því.

Ég verð svo að segja það, á síðustu sekúndunum sem ég hef, að minni hlutinn gagnrýnir framlög vegna Fjölbrautaskólans á Suðurlandi. Það er ekki bara hægt að byggja hús, eins og við bentum ítrekað á í fjárlagaumræðunni, og halda svo að ekki þurfi að kaupa inn í það tæki. Það er ekki óvænt að okkar mati og ekki heldur álagið sem hefur orðið til í Keflavík, það hefur líka verið á það bent. Hitt er kannski spurningin sem ég vil fá svör við.