145. löggjafarþing — 167. fundur,  10. okt. 2016.

fjáraukalög 2016.

875. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Páll Jóhann Pálsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er víða verið að fræða fólk í ferðamennsku eða þeim geira. Ég ætla ekki að fara að meta það eða hafa skoðun á því hvort slíkt nám sé betra í þessum skóla eða í einhverjum öðrum. Við erum með Stjórnstöð ferðamála og ég skal alveg viðurkenna að ég hef ekki kafað svo djúpt ofan í þann rekstur, ég treysti þeim sem sjá um þann rekstur til að gera það vel. Ég ætla svo sem ekkert að hafa skoðun á því. Ég held að það sé ágætt að dreifa kröftunum og eins og ég sagði áðan þá virðist ferðamannastraumurinn hingað til landsins bara alltaf aukast. Ég held að við þurfum einmitt að dreifa kröftunum til að reyna að halda utan um það.

Hvað er fyrirséð og hvað ófyrirséð — ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að ef við byggjum skólahús þá þurfum við tæki. Af hverju var það ekki komið annars staðar í fjárlögunum? Ég get alveg tekið undir þá spurningu. En svona kom málið til okkar og ég hef engan áhuga á að sjá nýtt hús standa autt og ónotað tækjalaust. Ég held að það sé ekki seinna vænna að kaupa í það tæki og fara að nota húsið.