145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

breytingartillögur við frumvarp um almannatryggingar.

[10:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Nú hefur Framsóknarflokkurinn gefið það út fyrir kosningar að hann muni, ef flokkurinn verður áfram í ríkisstjórn, sjá til þess að aldraðir og öryrkjar fái að lágmarki 300 þús. kr. lífeyri. Það er í sjálfu sér gott og blessað og alveg í samræmi við áherslur okkar í minni hlutanum. Að vísu hefur hæstv. forsætisráðherra fellt tillögur sem leiða að því marki samtals þrisvar sinnum í þinginu við síðustu fjáraukalög og fjárlög. En batnandi mönnum er best að lifa.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra um þær breytingartillögur sem hæstv. ráðherra stendur að er varða almannatryggingar og lagðar hafa verið fram af meiri hluta hv. velferðarnefndar. Það veldur vonbrigðum hvernig breytingartillögur meiri hlutans eru útfærðar og er harkalega gagnrýnt að þær gagnist ekki öllum sem á þurfa að halda. Nýja frumvarpið sem breytingartillögurnar eru við eru um einföldun kerfisins, en mikil óánægja var með að ekki var verið að hækka bætur í frumvarpinu eins og það leit út þegar það var lagt fram fyrst og þar voru engin frítekjumörk. Viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við gagnrýninni við tillögurnar eru að hækka heimilisuppbót um 52% þannig að þeir sem búa einir fá 280 þús. kr. þann 1. janúar 2017. Það gagnast þeim sem búa einir en skerðingarmörkin á heimilisuppbótina eru hækkuð um leið.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig bregst hann við þeirri gagnrýni að þarna sé í raun verið að setja sambúðarskatt? Munurinn á greiðslum til þeirra sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð verður miklu meiri. Síðan eru tillögurnar með öryrkjana þannig að þar er hækkaður flokkur sem skerðist krónu á móti krónu. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann ekki að láta gott tækifæri fram hjá sér fara til að uppfylla kosningaloforð Framsóknarflokksins fyrir kosningar?