145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

breytingartillögur við frumvarp um almannatryggingar.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjandanum þessa fyrirspurn. Þó að kannski væri eðlilegast að beina henni til félags- og húsnæðismálaráðherra er mér bæði ljúft og skylt að svara því er varðar stefnu okkur framsóknarmanna. Það hefur verið mjög skýrt að við höfum viljað ganga alla leið með þá kerfisbreytingu sem unnið hefur verið að á þessu kjörtímabili og í það minnsta því síðasta líka og sennilega í mun lengri tíma, að einfalda kerfi almannatrygginga. Ég held að ég megi fullyrða úr þessum ræðustól að það er kerfi sem fáir skilja. Menn hafa oft sagt að það sé kannski á höndum örfárra í Tryggingastofnun að útskýra það. Ég held að það sé mjög góður áfangi í að einfalda kerfið að koma þessu í eitt fyrirkomulag með einni skerðingu eins og ráð er fyrir gert með þessari breytingu.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að til viðbótar því erum við að tryggja það sem ég hélt að formaður Samfylkingarinnar væri sammála okkur í Framsóknarflokknum um að væri mikilvægast, þ.e. að taka á vanda þeirra sem verst standa og tryggja þeim 300 þús. kr. bætur þegar við komum inn í árið 2017. Það er reyndar talsvert áður en lágmarkslaun verða 300 þús. kr. því að þau verða það ekki fyrr en 1. maí 2018, samkvæmt kjarasamningum. Ég hefði haldið að við værum nokkuð sammála um það. Og það að bæta frítekjumarki á allar tekjur mundi síðan verða til þess að það fólk sem minnst hefur en á kannski lítinn sparnað inni á bankabók eða hefur lágar lífeyristekjur, fái þær greiðslur án þess að skert sé á móti. Ég hefði talið að það væru góðar tillögur.