145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

breytingartillögur við frumvarp um almannatryggingar.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Ég er satt best að segja svolítið undrandi á því að hv. þingmaður, formaður Samfylkingarinnar, skuli ekki vera sammála okkur um það hversu mikilvægt það er að koma til móts við þá sem verst standa og lýsi því yfir hér að Samfylkingin muni styðja þessar tillögur.

Umræðan um það hvort greiðslur fari fram 1. janúar eða 1. maí gerir það eiginlega að verkum að við þyrftum að velta því fyrir okkur hvort við þurfum ekki að samræma þetta. Staðreyndin er sú að þegar bætur hækka 1. janúar 2017 þá eru þeir sem þiggja bæturnar á undan hinum almenna markaði, launamarkaðinum. Í fjóra mánuði verða þeir búnir að fá sínar bætur hækkaðar miðað við þann verðlagsgrundvöll. Þetta vita allir (Gripið fram í.) og þetta skilja allir. Ef við mundum færa þær til 1. maí og allir væru á sama tíma þá mundu menn geta hætt þessu rugli um afturvirkar greiðslur. 1. maí 2017 hækka bætur umtalsvert vegna þeirra verðlagsbreytinga sem orðið hafa á þessu ári, það vita allir.

Varðandi öryrkjana þá get ég því miður ekki svarað því, en þeir fóru ekki í kerfisbreytinguna eins og Landssamband eldri borgara og þess vegna verða þeir að bíða. Og þeir bíða næstu skrefa. Við erum að stíga gríðarlega stór skref. Það eru 10 milljarðar sem munu fara til eldri borgara við þær breytingar (Forseti hringir.) sem við erum að gera núna. Það mun hver og einn einasti eldri borgari finna á sínu veski.