145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

auknar skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[10:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það kom fram í svari hæstv. forsætisráðherra við fyrirspurn frá hv. þm. Oddnýju Harðardóttur að hann væri ánægður með breytingartillögu meiri hlutans við almannatryggingafrumvarpið. Hann sagði: Þetta eru góðar tillögur.

Ég er með spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra því að annaðhvort hefur Framsóknarflokkurinn látið Sjálfstæðisflokkinn plata sig eða þá að Framsóknarflokkurinn styður stefnu samstarfsflokksins um aukinn ójöfnuð á Íslandi.

Með breytingartillögum meiri hlutans við almannatryggingafrumvarpið er verið að auka muninn á greiðslum til einhleypra lífeyrisþega og lífeyrisþega sem eru í sambúð. Til að ná markmiðinu um 280.000 kr. fyrir þá sem búa einir árið 2017 eru skerðingar á eldri borgara og öryrkja auknar frá því sem nú er. Þessi munur og skerðingarnar munu aukast enn frekar árið 2018 nái tillögur meiri hlutans fram að ganga.

Mér leikur hugur á að vita hvers vegna hæstv. félagsmálaráðherra er tilbúin að snuða lífeyrisþega í sambúð um eðlilega hækkun og hvers vegna hún er tilbúin að auka skerðingar hlutfallslega á þá sem búa einir.