145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

auknar skerðingar í almannatryggingakerfinu.

[11:01]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svaraði ekki spurningum mínum. Hæstv. ráðherra leggur til að fólk sem er í sambúð, lífeyrisþegar, fái minni hækkun hlutfallslega en þeir sem búa einir. Hún er líka að taka ákvörðun um að auka hlutfallslega skerðingar á þá sem búa einir. Hún talar um að þetta sé kjarabót.

Sannarlega er verið að hækka greiðslurnar en það er gert með nánasarlegum hætti, það er verið að blekkja fólk, það er verið að auka skerðingar og auka mun eftir sambúðarformi.

Ég óska eftir því að ráðherra svari spurningum mínum. Þær eru tvær. Í fyrsta lagi: Af hverju er verið að auka hlutfallslegan mun á milli einhleypra og fólks í sambúð? Í öðru lagi: Af hverju er verið að auka hlutfallslegar skerðingar á þá sem búa einir?