145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

vistvæn framleiðsla í landbúnaði.

[11:03]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja út í reglugerð um vistvæna vottun. Ég hef áður spurt út í þau mál hér á þinginu, spurt fyrrverandi ráðherra. Á einhverjum tímapunkti var ákveðið að búa til eitthvað sem kallast vistvæn framleiðsla og er hún þá ekki hefðbundin og ekki lífræn. Neytendasamtökin gerðu alvarlegar athugasemdir við þetta og töldu villandi. Í fyrra, 2015, var að störfum starfshópur sem skoðaði þetta mál og komst að því að þetta fyrirkomulag væri óviðunandi. Ekkert eftirlit væri með þessari vistvænu framleiðslu en samt byggðist hún á reglugerð og neytendur hefðu enga tryggingu fyrir því að framleiðslan sem merkt væri vistvæn væri á einhvern hátt betri en hefðbundin framleiðsla.

Ég hef spurt út í þetta hér, það er örugglega ár síðan, og nú langar mig að vita hvað hefur verið gert, hvernig menn hafa brugðist við vinnu starfshópsins sem skilar þessari niðurstöðu og telur að þessi vistvæna merking eða vottun sé ekki góð. Bent er á að í þeim löndum þar sem menn eru með einhvers konar slíka vottun séu það framleiðendur sem taki sig saman og ákveði hvernig þeir ætla að haga þessu. Ef ríkið eða stjórnvöld eru með svona vottun verða þau auðvitað líka að tryggja eftirlit.

Það sem mér finnst alvarlegt við þetta er í raun að við erum með hefðbundna framleiðslu sem á að vera mjög góð. Svo erum við með lífræna framleiðslu sem við höfum veitt allt of litla athygli á Íslandi, sett allt of litla peninga í það, og þessi vistvæna vottun gerir ekkert nema flækja málið.