145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þegar ég hóf störf á Alþingi fyrir tæpum átta árum var mér nokkuð brugðið að sjá hvernig lagasetning fer fram í raun og sann. Ítrekað hef ég orðið þess áskynja að frumvörpin sem hér eru lögð fram í belg og biðu rétt fyrir þinghlé hverju sinni eru ekki fullbúin og á mörkum þess að vera þingtæk samanber það átakamál sem var skyndilega tekið á dagskrá þingsins í gær vegna verulegs annmarka er lýtur að lögum um raflínur á iðnaðarsvæðinu á Bakka. Því miður hefði veruleikinn orðið sá að meiri hluti þingsins hefði þvingað þetta mál í gegn ef ekki hefði fallið í miðjum umræðum um frumvarpið úrskurður sem lögin náðu ekki til. Þess ber að geta að þrátt fyrir að þingflokksformenn minni hlutans hafi lagt hart að forseta þingsins fyrr um daginn að færa málið aftast á dagskrá vegna þeirrar óvissu sem ríkti um það var ekki brugðist við því. Það var því ákaflega neyðarlegt fyrir þingið að verða vitni að því að í miðjum umræðum síðar um daginn féll úrskurður frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sem felldi úr gildi framkvæmdaleyfi Landsnets fyrir Kröflulínu 4. Það var mat nefndarinnar að sveitarfélagið Skútustaðahreppur hefði brotið gegn náttúruverndar-, skipulags- og stjórnsýslulögum.

Forseti. Lagasetning á Alþingi Íslendinga er með sanni ekki alltaf þannig úr garði gerð að hér séu teknar vel upplýstar ákvarðanir. Þegar maður leyfir sér að gagnrýna og kalla eftir meiri tíma til að fara yfir frumvörpin sem hér á að moka í gegn á færibandi er því borið við að hvergi í þeim löndum sem við berum okkur saman við sé lögum frá ráðuneytum eins mikið breytt.

Forseti. Það er ekki góðs viti því að það þýðir á mannamáli að frumvörpin eru oft og tíðum hræðilega vanbúin vegna pólitísks þrýstings ráðherra á að klára málin áður en þau eru fullþroskuð.

Það er ekki bara ég sem hef ítrekað bent á þetta og kallað eftir breytingum. Í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2015 er bent á skort á fagmennsku við lagasetningu og nauðsyn þess að bæta úr þessari áratugalöngu hefð hálfkaraðra þingmála sem sett eru til meðferðar á Alþingi. Vert er líka að hafa í huga að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur ítrekað lagt fram frumvarp um að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis sem hafi það hlutverk að samræma reglur um samningu lagafrumvarpa og annan undirbúning löggjafarmála. Starfsmenn lagaskrifstofu skyldu vera alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis og Stjórnarráðsins til ráðgjafar um undirbúning löggjafar. Skyldi einkum líta til þess að frumvörp stæðust stjórnarskrá og alþjóðasamninga sem íslenska ríkið er bundið af og að frumvörp væru lagatæknilega rétt. Lagaskrifstofa skyldi einnig ganga úr skugga um að frumvörp stæðust þjóðréttarlegar skuldbindingar og væru í samræmi við gildandi lög, væru nákvæm, skýr og auðskiljanleg og gjaldtökuheimildir skýrar.

Mér er fyrirmunað að skilja, forseti, af hverju þetta frumvarp hefur ekki verið samþykkt og langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann sé mótfallinn því. Ef svo er, af hverju? Ef hæstv. forsætisráðherra er samþykkur þessu frumvarpi frá samþingsmanni hans, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, því hefur flokkur hans ekki beitt sér fyrir því að frumvarpið yrði samþykkt á þeim tíma sem þau hafa setið í sínum mikla meiri hluta á Alþingi Íslendinga?

Nýlega kom fram álit stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2015. Í henni má lesa eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í ársskýrslu umboðsmanns Alþingis er fjallað um skyldu ráðherra til að leita álits ráðuneytis til að tryggja að ákvarðanir og athafnir hans séu lögum samkvæmt, samanber 20. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011. Starfsmenn ráðuneyta skulu í samræmi við stöðu sína og hlutverk veita ráðherra réttar upplýsingar og ráðgjöf sem byggist á staðreyndum og faglegu mati á valkostum þannig að hann geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun.“

Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort þessu hafi í einu og öllu verið framfylgt þegar frumvarp um raflínur á iðnaðarsvæðinu á Bakka var samþykkt til framlagningar hjá ríkisstjórninni nýverið. Mig langar jafnframt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hversu algengt það sé að fá lögfræðiskrifstofur til að skrifa álit án þess að nauðsynleg dýpri fagþekking sé til staðar um tiltekin átakamál eins og komið hefur fram að skorti í nýlegu áliti er lýtur að lögum um raflínur við Bakka.