145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:22]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að tilefni sé til þess að við tökum til umræðu mál af því tagi sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hefur gert við þessa umræðu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það form sem við höfum á þessari umræðu sé nokkuð takmarkandi til þess að ræða þessi mál til hlítar. Ég held að við getum öll verið sammála um að hvort tveggja þarf að vera í betra lagi, undirbúningur lagasetningar af hálfu ráðherra og málsmeðferð hér í þinginu. Faglega þarf að standa betur að verki, bæði á vettvangi ráðuneyta og hér á vettvangi þingsins. Auðvitað, þegar svona er sagt, hættir manni til þess að fara í alhæfingar. Ég held að dæmin um góða lagasetningu eða vönduð vinnubrögð séu miklu fleiri en hin dæmin. En auðvitað eru það þau sem stinga í augu; þegar ekki er búið að róa fyrir allar víkur þegar frumvörp eru lögð fram, þingið fer í margs konar breytingar, sumar kannski vanhugsaðar, og niðurstaðan verður sú að það þarf að taka löggjöfina upp innan fárra missira eða ára.

Þó verður að hafa í huga, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi, að á undanförnum árum hafa fleiri en ein og fleiri en tvær ríkisstjórnir reynt að standa fyrir breytingum í jákvæða átt. Hér var nefnd handbókin frá 2007 sem markaði mjög skýra leiðsögn um það hvernig ætti að vinna þessi mál. Ég horfði á það eftir hrun að ákvæðum þeirrar handbókar var skipulega ýtt til hliðar, sumpart vegna ytri aðstæðna og sumpart vegna þess að í atinu eftir hrun misstu menn einfaldlega sjónar á þeim grundvallarviðhorfum sem voru fyrir hendi. En með eflingu faglegrar aðstoðar hér í þinginu og með (Forseti hringir.) styrkingu ráðuneyta held ég að við getum náð betri árangri. En auðvitað er sú krafa alltaf (Forseti hringir.) á þingmennina, sem bera á endanum ábyrgð á lagasetningunni, að þeir vandi sig og vandi til verka.