145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:27]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég verð að minnast á þingmál sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram, það er gaman að ég get verið sammála henni. Það er gott mál sem miðar að því að styrkja þingið, þ.e. að hér sé lagaskrifstofa sem þingmenn geti leitað til. Eins og við höfum stundum rætt hér, þingmenn, þá tökum við á móti frumvörpum og málum en höfum litlar forsendur til þess að fara sjálf í að útbúa flókin mál, eða jafnvel bara breytingar á reglugerðum, eins og ég hef rætt við hv. málshefjanda í þessari umræðu. Við erum alltaf að bíða eftir því að breytingar og umbætur á lögum komi frá ráðuneytunum þegar við hér í þinginu, löggjafarvaldið, ættum að geta tekið málið í eigin hendur og lagt fram okkar þingmál. En það gerist afar sjaldan.

Annað kom mér á óvart en það er hve mikill hluti af vinnunni fer í að grúska í lagatextum. Nú er ég enginn lögfræðingur og á erfitt með að sjá fyrir hvernig einstaka lagagreinar komi til framkvæmda ef þær færu til dæmis fyrir dóm. Sem dæmi erum við að fara að samþykkja lög um opinber innkaup. Þar er lagagrein og þó að ég fengi þrjá mánuði í viðbót held ég að ég mundi aldrei komast til botns í því hvort við höfum útbúið hana eins vel og mögulegt er eða hvort hún væri betri með öðrum hætti. Þá verður maður að hugsa þannig að ef við gerum mistök þá breyti menn lögunum og lagfæri þau, en (Forseti hringir.) óhjákvæmilega erum við að því. Maður gerir sér í raun grein fyrir því, sem er ekki endilega mjög þægilegt.