145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:29]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Herra forseti. Mig langar til þess að þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mjög þarfa og mikilvæga máli. Þetta er mál sem ég er búin að velta ótrúlega mikið fyrir mér sjálf sem nýr þingmaður, ég kem inn sem varaþingmaður og þetta er í fimmta skiptið sem ég kem inn, og sitja á nefndarfundum. Ég tek eftir því hvað þetta er óaðgengilegt í raun og veru. Maður tekur svo mikla ábyrgð þegar maður er að setja þessi mál í gegn, fylgir þeim í umræðunni, og þetta eru lög sem hafa mikil áhrif í lífi fólks. Mér finnst við alls ekki hafa nægileg tækifæri til þess að gera okkur grein fyrir því hvað við erum að greiða atkvæði um í þessum sal, en ekki bara það, heldur get ég ekki sótt dómgreind til almennings eða í grasrót Pírata t.d. af því að það er ekkert aðgengi að upplýsingunum á nefndarfundunum. Það er líka rosalega erfitt. Það eru stór mál að fara í gegn núna. Ofboðslega þætti mér vænt um að geta deilt öllum þessum upplýsingum og fengið lánaða dómgreind grasrótarinnar og fengið hjálp með að rýna í málin og skoða hvort það séu einhverjir vinklar sem við erum mögulega að missa af.

Þegar kemur að því að auka aðgang þá er eitt sem ég hef tekið eftir á nefndarfundum, það einkennist allt af rosalega litlu samráði. Það er ekki nóg að kalla inn fólk til þess að koma með umsagnir þegar búið er að semja allt málið. Það verður að gefa fólki aðgang að þessu alveg frá byrjun. Þetta er dálítið það sem ég vil að við Píratar komum með hérna inn, við erum með algjöran fókus á að breyta þessum grundvallarhlutum þannig að við getum endurhugsað og endurskoðað hvernig við störfum í þessu húsi. Við gerum ekki neitt af viti nema við gerum þetta aðgengilegra og hleypum fleiri inn í þetta ferli með okkur.