145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

áhrif málshraða við lagasetningu.

[11:46]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem mér fannst áhugaverð og staðfesta að þingmenn eru með nokkuð svipaða sýn á þessi mál. Það þarf auðvitað að bæta hér undirbúning og auka samráð. Ég held að það verði seint of oft ítrekað að það er mikilvægt við lagasetningu og annað sem varðar líf borgaranna, einstaklinga og fyrirtækjanna í landinu, að viðhöfð sé langtímahugsun, langtímaáætlanir, að ákveðin stefna sé tekin og eins mikið samráð haft í vinnuferlinu og á tímaásnum og kostur er.

Ég hef þó aðeins undrast umræðuna um að Alþingi sé á einhvern hátt verr í stakk búið, en við erum vissulega fá, eins og í stjórnsýslunni. Að því leytinu er það rétt. En hér er til að mynda meira sjálfstæði þingsins en á mörgum öðrum þingum. Við breytum lögum meira. Það er ekki bara vegna þess að þau eru ekki nægilega vel úr garði gerð, heldur er sjálfstæði þingsins meira. Við höfum séð, sérstaklega á þessu kjörtímabili, mun fleiri þingmannamál fara í gegnum þingið, sem ég held að sé jákvætt, þannig að ég undraðist aðeins þá umræðu sem hér var áðan.

Síðan koma auðvitað upp dæmi þar sem bregðast þarf við með skjótum hætti. Þá reynir á hvort sú vinna sé góð fyrir dómstólum. Neyðarlögin eru gott dæmi um það. Þau stóðu. Þau voru sett í mikilli þröng samfélagsins. Þau þurfti að afgreiða. Stundum koma minni neyðartilvik upp eins og raflínumálið á Bakka þessa dagana. Þá þarf að bregðast við því. Þingið þarf að geta gert það. Þingið er búið að standa hér saman, bæði framkvæmdarvald og löggjafarvald, í mörg ár um að byggja upp framkvæmdir á Bakka við Húsavík, gera samninga við fyrirtæki og láta ríkisstofnanir klára. En síðan ætlar bara þingið að segja: Pass, við gerum ekki neitt, við ætlum að láta þetta hverfa. Þá verða þeir sem það segja að fara hér upp og segja: Við erum ekki í málþófi til þess að tefja málið, (Forseti hringir.) við erum ekki komin hér til þess að koma í veg fyrir að þessi mál (Forseti hringir.) gangi fram. Látum heldur á þetta reyna. Tökum af skarið. (ÓÞ: Hvað með úrskurðinn?)(BirgJ: Það er fallinn úrskurður.)