opinber innkaup.
Herra forseti. Þetta er um margt ágætt mál og ég stend að nefndarálitinu með fyrirvara sem ég vil gera hér grein fyrir. Hann snýr fyrst og fremst að sveitarfélögunum þar sem ég hef haldið því á lofti að þau eigi að fá að njóta þess að vera innan sinna eigin reglna en ekki að falla undir þær reglur sem hér er verið að setja fram. Það er tvennt í þessu, annars vegar viðmiðunarfjárhæðirnar og síðan er það kærunefndin en ég hef haft áhyggjur af því eins og sveitarfélögin að málum geti fjölgað mikið og þetta verði töluverður kostnaðarauki fyrir sveitarfélögin og framkvæmdir geti tafist. Þar sem verktíminn er gjarnan mjög stuttur hjá sveitarfélögunum finnst mér ekki tilhlýðilegt að þau séu þarna undir. Af þessum sökum munum við vinstri græn sitja hjá.