145. löggjafarþing — 168. fundur,  11. okt. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[11:54]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Bjartri framtíð höfum út af fyrir sig verið jákvæð í garð þeirrar hugsunar að ákveðið valfrelsi sé með það hvað fólk gerir við viðbótarlífeyrissparnaðinn sinn, að það kunni að vera skynsamlegt að fólk hafi það val að færa hann á milli sparnaðarforma, setja hann í húsnæði eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Grunnhugsunin er allt í lagi.

Hins vegar er sá annmarki á þessu frumvarpi og þessu máli að það hjálpar að okkar mati ekki þeim sem mesta hjálp þurfa við að kaupa sína fyrstu íbúð. Þetta gagnast fyrst og fremst tekjuháu ungu fólki sem má halda fram með rökum að þurfi kannski enga sérstaka hjálp til að koma sér upp húsnæði. Gagnvart hinum er þetta gagnslaust. Af þeim sökum getum við ekki greitt þessu atkvæði okkar og ætlum að sitja hjá í þessu máli og vera á gula takkanum.

Okkur finnst þetta ekki vera frumvarp sem nær yfirlýstu markmiði sínu. Þetta er gagnslaust.